Fréttatilkynning.Kvennakór Suðurnesja var stofnaður árið 1968 og fagnar því 40 ára starfsafmæli á þessu ári. Kórinn er jafnframt elsti starfandi kvennakór á landinu. Starf kórsins er í miklum blóma um þessar mundir. Kórkonur héldu nýlega utan til Ítalíu þar sem þær tóku þátt í alþjóðlegri kórakeppni. Þær stóðu sig með prýði og komu heim með viðurkenningu í gullflokki í farteskinu. Næstkomandi laugardag ætlar kórinn að halda glæsilega afmælistónleika ásamt Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Á efnisskránni er tónlist sem kemur úr öllum áttum. Fyrir hlé flytur kórinn sýnishorn af þeim lögum sem hann söng í keppninni á Ítalíu en þar tók kórinn þátt í flokki kvennakóra sem fluttu þjóðlög frá eigin landi. Einnig frumflytur kórinn lag ásamt Dagnýju Þórunni Jónsdóttur sópransöngkonu sem jafnframt er stjórnandi kórsins. Þetta er lag eftir Eirík Árna Sigtryggsson en hann hlaut menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súluna, nú nýverið. Hann stjórnar kórnum í þessu verki sínu sem hann samdi sérstaklega fyrir Dagný og kórinn. Með kórnum verður líka einn þekktasti bassasöngvari þjóðarinnar, Suðurnesjamaðurinn Bjarni Thor Kristinsson og mun hann syngja einsöng með kórnum auk þess sem hann og Dagný syngja tvo dúetta. Í tveimur lokalögunum fyrir hlé fær kórinn síðan til liðs við sig fjölmargar konur sem hafa sungið í kórnum á þessum 40 árum, en eru ekki starfandi núna. Píanóleikari er Geirþrúður Fanney Bogadóttir. Eftir hlé kveður síðan við allt annan tón. Þá mun kórinn bregða sér í djass-sveiflu og fá til liðs við sig eina bestu big-band hljómsveit landsins, Léttsveit Tónlistarskólans í Reykjanesbæ. Það er engin spurning að þetta verður frábær skemmtun og ætti enginn að láta þessa tónleika framhjá sér fara, en aðeins verður um þessa einu tónleika að ræða.Tónleikarnir verða haldnir í sal Íþróttaakademíunnar í Reykjanesbæ laugardaginn 23.
21. febrúar 2008