Hættulegar akstursíþróttir í Vogum

Ég hef áhyggjur af hraðakstri fjórhjóla og annarra öflugra vélhjóla hér á götum og útivistarsvæðum okkar Vogabúa undanfarna mánuði. Hvers vegna?
Aksturinn er oft hraður og glannalegur – langt yfir leyfðum hámarkshraða innanbæjar.
Akstur sumra þessara farartækja er ekki leyfður á umferðargötum. Því síður er leyfilegt að aka slíkum tækjum á göngustígum og útivistarsvæðum.
Sum ökutækin virðast vera óskráð.

Sumir ökumennirnir eru próflaus ungmenni og þá gildir einu þótt hjólin séu skráð, því tryggingar gilda almennt ekki fyrir próflausa ökumenn, ekki frekar en fyrir þá sem aka ölvaðir. Tryggingarfélagið myndi að vísu bæta tjón sem próflaus ökumaður veldur, en síðan endurkrefja unglinginn eða foreldra hans um andvirði skaðans sem gæti skipt milljónum. Ef unglingurinn er orðinn 15 ára telst hann vera sakhæfur. Hann kæmist á sakaskrá, yrði krafinn um sekt eða skaðabætur og seinkun yrði á því að hann fengi að taka bílpróf.
Unglingar geta tekið próf á létt bifhjól 15 ára, en það próf gildir ekki á fjórhjól. Þar þarf fullgilt ökupróf sem enginn tekur yngri en 17 ára.
Mér er tjáð af reyndum tryggingamanni að algengt sé að ökumenn fjórhjóla slasist sjálfir en minna sé um að þeir slasi aðra.

Ég vil að foreldrar hugleiði þetta áður en þeir leyfa unglingnum sínum að þeysa um á fjórhjóli. Ég vil að við Vogabúar reynum að koma vitinu hvert fyrir annað og stöðva slíkan akstur áður en alvarlegt slys hlýst af.

Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef próflaus unglingur veldur hér alvarlegu slysi. Það gæti lagt efnahag foreldra viðkomandi í rúst á einu augnabliki auk þess að saklausir vegfarendur og ökumaðurinn sjálfur gætu slasast alvarlega. Svo er einnig slæmt ef fullorðið fólk sýnir vont fordæmi með glannalegum fjórhjólaakstri eða að aka um útivistarsvæði þar sem allur akstur er bannaður.

Kæru Vogabúar. Hjálpumst að við að stöðva óábyrgan akstur áður en það er um seinan. Ef fólk lætur ekki segjast gerum við því greiða með því að tilkynna aksturinn lögreglu.
Fyrirbyggjum slysin og bætum umferðarmenninguna í Vogum.

Þorvaldur Örn Árnason