Vistvæn garðyrkja

AragerðiSumarathvarf margra er garðholan við húsið.  Fátt er ánægjulegra en að sitja í garðinum með kaffibollann og horfa yfir vel unnið verk.  Garðurinn er griðarstaður fjölskyldunnar – framlenging á eldhúsinu eða stofunni og býður upp á ótal möguleika.

Garðyrkja er vinna.  Hún er stundum erfið og tímafrek en alltaf fyrirhafnarinnar virði.  Vel við haldinn og snyrtur garður ber vitni um góðan eiganda.

Garðyrkju fylgja ótal handtök og mismunandi verkefni.  Fæst okkar hugsa endilega um vistvernd við garðvinnuna en hana má svo sannarlega tileinka sér við hana líkt og á heimilinu.

Hér fylgja á eftir nokkrar hugmyndir að vistvænum vinnubrögðum í garðinum:

Dreifa nýslegnu grasi af flötum í trjábeð

Flestir slá grasflatir vikulega yfir sumartímann.  Grasið sem til fellur er fíngert og fljótt að breytast í mold og því tilvalið að dreifa því yfir t.d. trjábeð eða á önnur svæði. 

Ávinningurinn:

Spörum okkur bílferð með kerru á gámasvæðið og mengun við losun á gámi verður minni.


Nota lífrænan áburð í beð og á grasflatir

Í öllum sveitarfélögum er hægt að fá lífrænan áburð, t.d. frá hesthúsum.  Gott er að grafa litlar holur hjá plöntunum, setja skítinn í og moka mold yfir.  Fyrir þá sem vilja fallegar grasflatir er tilvalið að dreifa þurrum skít á flatirnar, leifa honum að rigna niður og raka síðan það sem eftir er saman og grafa niður í beð.

Ávinningurinn:

Minni notkun kemískra efna.  Skítur sem jafnvel er keyrður burt úr sveitarfélaginu til urðunar er nýttur til fullnustu á staðnum.  Ókeypis áburður (þarf þó að sækja hann).  Fallegur og gróskumikill gróður.

Grafa sölnuð lauf og rusl af blómum í trjábeð

Að vori er garðurinn fullur af sölnuðum laufum og blómarusli frá því í fyrra.  Það er tilvalið að gera litlar holur t.d. í stæðsta beðið í garðinum og moka ruslinu ofan í.  Einföld moltugerð í garðinum heima.

Ávinningurinn:

Spörum okkur bílferð með kerru á gámasvæðið og mengun við losun á gámi verður minni.  Viðhöldum magni moldar í beðunum.

Nota endurnýtanlega poka í ruslatínslu og annað tilfallandi

Er einhver ennþá að nota svarta ruslapoka í þessi verk?  Hægt er að fá einskonar “plaststrigapoka” í flestum garðyrkjudeildum stórverslana.  Pokarnir nýtast allt sumarið og jafnvel lengur ef vel er með farið.

Ávinningurinn:

Minna álag á náttúruna.  Við vitum öll hvað plast er lengi að eyðast í náttúrunni.

Nota lífrænar aðgerðir við illgresiseyðingu og gegn skordýrum

Ýmislegt annað en eitur er hægt að nota til að varna því að illgresið æði um allt.  Fyrst ber að nefna að vera duglegur að reyta – fátt veitir meiri hugarró en að liggja á hnjánum úti í beði.  Byrja alltaf þar sem minnst illgresi er, það vex þá ekki á meðan átt er við erfiðari svæði sem hvort eð er krefjast mikllar vinnu.  Margir kannast við fíflastafinn, góð lausn við að losna við fífla úr grasflötum. 

Ýmiskonar skordýrafælur eru til og fjölmörg húsráð við t.d. sniglum í matjurtagörðum.  Eitt er að sníða tjörupappa og leggja á moldina kringum plönturnar.  Jarðaberjaplöntur dafna vel þannig og enginn snigill hefur áhuga á að skríða upp á pappann og gæða sér á berjunum.

Ávinningurinn:

Mengun í jarðvegi verður engin, garðagróðurinn dafnar betur (eitur hefur nefnilega vaxtarhamlandi áhrif á plönturnar sem við viljum að lifi og erum að dútla með og dáðst að).  
Lífrænt ræktað grænmeti úr garðinum.

Kurla trjágreinar og nota í beð eða safnhaug

Afklippur af trjám og runnum getum við kurlað og dreift kurlinu í beðin í garðinum.  Greinarnar breytast, eins og allt annað lífrænt, í mold.  Handhæga kurlara er hægt að leigja á leigumörkuðum.  Nágrannar geta t.d. tekið sig saman að vori og leigt yfir helgi og hjálpast að.

Ávinningurinn:

Spörum okkur bílferð með kerru á gámasvæðið og mengun við losun á gámi verður minni.  Skemmtileg samverustund með nágrönnunum.

Safnhaugar 

Komum okkur upp safnhaugum í garðinum.  Allt lífrænt má setja í safnhauginn, jafnt garðaúrgang sem og afgangana úr eldhúsinu.  Allt breytist í mold – á mislöngum tíma þó.  Miklar og góðar leiðbeiningar um safnhauga má m.a. finna á hinum ágæta veraldarvef.

Ávinningurinn:

Allt lífrænt er endurnýtt í garðinum sem mold.  Ókeypis næringarríkur jarðvegur í matjurtagarðinn eða blómabeðin.

Hugum að náttúrunni í nágrenni okkar.  Gerum það sem við getum til að viðhalda henni og bæta.

Góða skemmtun í garðinum !

Helga Ragnarsdóttir
Vogum

Getum við bætt efni síðunnar?