Stórheimilið Álfagerði vígt

Stórheimilið Álfagerði var vígt þann 28. febrúar síðastliðinn við hátíðlega athöfn. Stórheimilið er samstarfsverkefni Búmanna hsf. og Sveitarfélagsins Voga um uppbyggingu íbúða og þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara.

Við vígsluna var afhjúpaður skjöldur með nafni hússins, en nafnið var valið eftir samkeppni meðal bæjarbúa. Nafnið Álfagerði varð fyrir valinu. Nafið er sótt til staðsetningar hússins og fyrrum íbúa svæðisins. Stórheimilið stendur við Vogagerði og Akurgerði, en sem kunnugt er bjuggu álfar í hól einum sem þurfti að víkja fyrir byggingunni. Bæjarstjórn hafði samráð við álfana áður en framkvæmdir hófust og sættust álfarnir á að flytjast annað svo eldri borgarar í Vogum gætu átt þarna samastað. Höfundur nafnsins er Baldur Sigurðsson, verðandi íbúi í Álfagerði.

Í ávarpi, Birgirs Arnar Ólafssonar, forseta bæjarstjórnar kom fram að húsnæðið gjörbyltir aðstöðu fyrir tómstundastarf eldri borgara og mun sveitarfélagið þróa þjónustuna og starfsemina í samstarfi við eldri borgara.  Birgir sagði jafnframt frá því að nýlega hefur Íþrótta- og tómstundanefnd tekið fyrir tillögu að stofnun öldungaráðs.  Stefnt er að því að það taki til starfa á næstu misserum.  Starf þess verður án efa m.a. mótun tómstundastarfs og annarra verkefna stórheimilisins.

Samþætting búsetu og þjónustu er það sem koma skal í þjónustu við eldri borgara.   Með þessari óhefðbundnu leið í búsetu eldri borgara vill Sveitarfélagið Vogar marka sér sérstöðu meðal sveitarfélaga.  Eldri borgarar hafa nú þann möguleika að búa í sinni eigin íbúð en í öryggi þjónustunnar og í nálægð við tómstundir og samveru. 

Með þessari aðstöðu skapast gott tækifæri til að þróa þjónustu fyrir eldri borgara. Hluti þeirrar þjónustu er nú á höndum sveitarfélagsins, en hluti á hendi ríkisins.  Hver veit nema öll þjónustan verði komin á hendi sveitarfélagsins innan fárra ára, og þá erum við í Vogum tilbúin til að takast á við það verkefni með auknu fjármagni frá ríkinu.

Myndir. Á efri myndinni má sjá Baldur Sigurðsson, höfund nafnsins Álfagerði, við skjöld með nafni hússins.
Á neðri myndinni tekur Birgir Örn Ólafsson, forseti bæjarstjórnar við lyklavöldunum af Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt og formanni stjórnar Búmanna hsf.