Menningarstyrkir á Suðurnesjum- hugarflugsfundur í Tjarnarsal

Menningarstyrkir á Suðurnesjum - hugmyndafundur um umhverfi, menningu og minjar
verður haldinn í Tjarnarsal fimmtudaginn 21 febrúar kl. 20.

Kynnt verða verkefni og áhugamál einstaklinga og félaga og rætt um hugmyndir að nýjum verkefnum og hugsanlegu samstarfi og styrkumsóknum.

Allir velkomnir.

Bergur Álfþórsson, formaður fræðslunefndar

Kristinn Sigurþórsson, formaður atvinnumálanefndar

Þorvaldur Örn Árnason, formaður umhverfisnefndar

Menningarstarf og þróun menningartengdar ferðaþjónustu
-         hvað er í gangi?
-         hvað gætum við gert?

Nýstofnað Menningarráð Suðurnesja, sem ríkið og sveitarfélögin á Suðurnesjum standa að, hefur auglýst styrki vegna menningarstarfs og menningartengdar ferðaþjónustu. Sjá nánar á http://menning.sss.is/

Að þessu tilefni bjóðum við til fundar fólki sem hefur áhuga á slíkum málum í Sveitarfélaginu Vogum, til að kynnast því sem er í gangi og til að ræða hugmyndir hvernig hægt sé að efla slíka starfsemi og móta ný verkefni. Eftir fundinn gefst fólki ein vika til að móta verkefni og skrifa styrkumsóknir, en umsóknarfrestur er til 29. febrúar.

Við vonumst til þess að á fundinum munum við sjá og heyra í fólki sem fæst við myndlist, tónlist, sagnfræði, heimildasöfnun, skráningu örnefna, varðveislu fornminja (húsa, muna, þjóðleiða o.fl.), leiðsögn ferðamanna, náttúrulýsingar o.fl. Við hlökkum til að hitta listafólk og grúskara af ólíku tagi og deila með því kvöldstund.

Allt slíkt skiptir miklu máli ef við ætlum okkur að nýta tækifæri til atvinnusköpunar í menningar- og náttúrutengdri ferðaþjónustu. Fyrsta skrefið í þá átt er að sem flest okkar heimamanna kynnist okkar staðbundnu sögu, menningu og náttúru. Þá fyrst getum við farið að bjóða gestum okkar að njóta þess með okkur sem við höfum uppá að bjóða.

Rannsóknir og kynning náttúru okkar sveitarfélags, sögu og menningu er forsenda þess að hér geti þróast náttúru- og sögutengd ferðaþjónusta. Fyrst þarf að safna gögnum og skapa grunn til að byggja á. Við vitum um fók sem er að vinna gott starf í þessa veru, en það fólk þarf uppörvun og stuðning og það þarf að virkja fleiri til slíkra verka.

Við vonumst til að fundur þessi leiði í ljós að það er margt forvitninlegt í gangi og að fólk muni upplýsa og hvetja hvert annað til dáða.