Bílhræ

Á útivistarsvæði Vogabúa, undir Vogastapa og nokkrum metrum frá nýju borholunni sem færir okkur kalt vatn hefur einhverjum dottið í hug að losa sig við bílhræ. 

Ótrúlegt en því miður satt !

Hjá úrvinnslusjóði er greitt skilagjald fyrir bifreiðar sem afskráðar hafa verið og skilað er inn til förgunar.  Á heimasíðu sjóðsins á www.urvinnslusjodur.is er nánari útlistun á fyrirkomulaginu en þar stendur meðal annars:

“Greiða skal skilagjald, 15.000 kr., hverjum þeim sem afhendir gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, enda hafi ökutækið verið afskráð og úrvinnslugjald greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki.”

Um tíu til fimmtán þúsund bílum er fargað á hverju ári á Íslandi.  Þegar farið er með bíl til niðurrifs, t.d. hjá Hringrás eða Furu, er bíllinn pressaður saman þannig að rúmmál hans minnkar margfalt.  Þannig eru bílarnir sendir úr landi.  Þar eru þeir tættir niður og málmur flokkaður frá öðrum efnum.  Málmurinn er svo bræddur og endurnýttur í margvíslega hluti.  Gamli bíllinn gæti þannig orðið að nýjum eldhúsvaski, skrúfu, niðursuðudós eða jafnvel öðrum bíl.  Höfum það í huga þegar bílhræ eða járnabrak er annars vegar.

Nokkuð er af bílhræjum í Vogunum og á Vatnsleysuströnd.  Það er ekki úr vegi að nota tækifærið og hvetja eigendur þeirra til að losa sig við þau og hafa þá í huga úrræðið sem nefnt er að framan.  Að draga bílinn út fyrir bæinn og skilja þar eftir sjálfum sér og öðrum til ama er ekki lausn sem við sættum okkur við.

Sverrir Agnarsson, starfsmaður sveitarfélagsins, væri vís með að veita góð ráð og aðstoð ef með þarf.