Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hefur samþykkt að leggja 6,5 milljónir kr. aukalega í launagreiðslur til starfsmanna sveitarfélagsins á árinu 2008.
Tillögurnar eru unnar í framhaldi af vinnu stýrihóps um starfsmannastefnu Sveitarfélagsins Voga, en fyrstu niðurstöður þeirrar vinnu verða kynntar á næstunni. Sambærilegar tillögur eru lagðar fram í Sandgerðisbæ og Sveitarfélaginu Garði.
Með aðgerðunum er ætlunin að umbuna því góða starfsfólki sem vinnur hjá sveitarfélaginu og sýnir því tryggð og velvilja. Vonast er til að þessi breyting efli enn frekar starfsanda á stofnunum sveitarfélagsins.
Tillaga 1. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga samþykkir að leggja allt að 6,5 milljónir kr. aukalega í launagreiðslur til starfsmanna sveitarfélagsins á árinu 2008.
Um er að ræða greiðslur til starfsmanna sem greiddar verða 1. maí og 1. september. Þeir starfsmenn sem eru í föstu starfi hjá Sveitarfélaginu Vogum 1. maí og 1. september fá umræddar eingreiðslur á árinu 2008.
Markmið með þessum aðgerðum er að koma til móts við aukið álag starfsmanna vegna fjölgunar íbúa á undanförnum árum, stuðla að stöðugum gæðum þjónustunnar og ekki síst til að lágmarka starfsmannaveltu.
Samþykktin byggir á eftirfarandi viðmiðum:
Ófaglærðir starfsmenn í STFS og VSFK sem eru í launaflokki 122 og neðar fái greiddar 40.000 kr. 1. maí og 40.000 kr. 1. september miðað við 100% starfshlutfall.
Aðrir starfsmenn í STFS og VSFK fái greiddar 30.000 kr. 1. maí og 30.000 kr. 1. september miðað við 100% starfshlutfall.
Grunnskóla- og leikskólakennarar og annað háskólamenntað starfsfólk fái greiddar 50.000 kr. 1. maí og 50.000 kr. 1. september miðað við 100% starfshlutfall.
Tillaga 2. Bæjarráð samþykkir að stuðla að heilsueflingu meðal starfsmanna sveitarfélagsins með eftirfarandi hætti:
Sveitarfélagið Vogar styrkir þá starfsmenn sveitarfélagsins sem vilja stunda reglubundna líkamsrækt með 15.000 kr. fjárframlagi á móti árgjaldi á árinu 2008. Starfsmenn í hlutastarfi fá framlag miðað við hlutfall starfs. Greiðsla styrkja fer fram hjá gjaldkera gegn framvísun kvittunar á greiðslu ársgjalds eða árskorts.
Stuðningurinn er liður í stefnu meirihluta bæjarstjórnar um heilsueflingu meðal starfsmanna og kemur í framhaldi af öðrum aðgerðum, svo sem heilsufarsmælinga og hvatningu til skipulegra gönguferða.
Bæjarráð leggur áherslu á þá staðreynd að umboð sveitarfélagsins til kjarasamningsgerðar er hjá launanefnd sveitarfélaga. Kjarasamningar, röðun í launaflokk og starfsmat á að byggja upp í frjálsum samningum á milli stéttarfélaga og launanefndar sveitarfélaga.
Bæjarráð vill hinsvegar leggja áherslu á að í kjarasamningum sem gerðar verða á árinu 2008, verði gert ráð fyrir þeim möguleika, að greiða megi starfsmönnum launaviðbætur, vegna tímabundinna aðstæðna sem upp kunna að koma í einstökum sveitarfélögum, eftir formlegum leiðum og með gagnsæu ferli.