-
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga - 17
Með erindi stofnunarinnar fylgir frummatsskýrslan, ásamt viðaukum. Skýrslan og viðaukarnir liggja frammi á bæjarskrifstofu, almenningi til sýnis. Stofnfiskur efndi til almenns kynningarfundar í Tjarnarsal miðvikudaginn 9. september 2020, þar sem almenningi gafst færi á að kynna sér áform fyrirtækisins.
Afgreiðsla Skipulagsnefndar:
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við frummatsskýrsluna. Að mati nefndarinnar er á fullnægjandi hátt gerð grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd og umhverfi, umhverfisáhrifum og mati framkvæmdaraðila á þeim, mótvægisaðgerðir og vöktun. Áformin eru í samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins. Framkvæmdin er háð umsókn um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar.
-
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga - 17
Lagðar eru fram tvær umsóknir ráðuneytisins. Annars vegar umsókn um framkvæmdaleyfi vegna veðurfarsmælinga, dags. 9. 9. 2020 og hins vegar umsókn um mælistöð nr. 1370. Með umsóknunum fylgir samþykki landeiganda, Sauðafells ehf., ásamt upplýsingum um gerð masturs, afstöðumyndum og fleiri fylgigögnum. Sótt er um uppsetningu á möstrum, annars vegar 30 m stagað mastur og hins vegar 10 m hátt mastur. Nánar er gerð grein fyrir staðsetningu beggja mastranna í gögnum sem fylgja umsókninni. Umsóknin gerir ráð fyrir mælingarnar standi yfir í 2 ár, og að mannvirkin verði fjarlægð að þeim loknum.
Afgreiðsla Skipulagsnefndar:
Skipulagsnefnd samþykkir umsóknina og heimilar útgáfu framkvæmdaleyfis.
-
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga - 17
Með gögnum málsins fylgir skipulagsuppdráttur og afstöðumynd, þar sem fram stækkun byggingarreits sem nemur u.þ.b. 60 cm til norðurs.
Afgreiðsla Skipulagsnefndar:
Skipulagsnefnd fellst á beiðnina og heimilar að reiturinn verði stækkaður í samræmi við það sem fram kemur á uppdrætti. Nefndin samþykkir stækkun með vísan til 3.mgr. 44.gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, og gerir ekki kröfu um að breytingin verði grenndarkynnt, enda er um að ræða breytingu er varðar ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda.
-
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga - 17
Eftirfarandi gögn eru lögð fram:
-
bréf Skipulagsstofnunar dags. 9. september 2020,
-
bréf landeigenda Heiðarlands Vogajarða dags. 11. september 2020
-
minnisblað staðgengils Skipulags- og byggingafulltrúa dags. 11. september 2020.
Afgreiðsla Skipulagsnefndar:
Málið var áður til umfjöllunar á 13. fundi Skipulagsnefndar þ. 16.6.2020, þar sem samþykkt var að leggja til við bæjarstjórn að tillögurnar verði auglýstar í samræmi við 1.mgr. 31.gr. og 1.mgr. 43. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn staðfesti ákvörðun nefndarinnar á 170. fundi þ. 24.6.2020. Í kjölfarið voru tillögurnar auglýstar, en því miður láðist að leita álits Skipulagsstofnunar áður en tillögurnar voru auglýstar.
Í erindi Skipulagsstofnunar dags. 9.9.2020 eru settar fram athugasemdir og spurningar um einstök atriði skipulagsbreytingarinnar, með ósk um að stofnunin fari yfir þau mál með skipulagsyfirvöldum sveitarfélagsins. Nefndin leggur til að boðað verði hið fyrsta til slíks fundar, þar sem sveitarfélagið mun upplýsa betur um þær efnislegu athugasemdir sem fram koma í bréfi stofnunarinnar.
Skipulagsnefnd fjallar að svo stöddu ekki um athugasemdir sem borist hafa frá landeigendum, enda liggur endanleg afstaða Skipulagsstofnunar til aðalskipulagsbreytingarinnar ekki fyrir að svo stöddu.
-
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga - 17
Lögð fram fyrirspurn um matsskyldu, unnin fyrir sveitarfélagið af verkfræðistofunni Verkís. Skýrslan hefur þegar verið send Skipulagsstofnun til umfjöllunar, beðið er niðurstöðu stofnunarinnar um efnislega meðferð málsins. Beðið er staðfestingar á endurskoðuðu svæðisskipulagi Suðurnesja, sem er nauðsynleg forsenda þess að nýtt aðalskipulag öðlist gildi. Staðfesting svæðisskipulagsins bíður þess að Skipulagsreglur Keflavíkurflugvallar verði staðfestar, en það mál er til umfjöllunar hjá Sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytinu.
Afgreiðsla nefndarinnar á athugasemdum Skipulagsstofnunar og landeigenda vegna skipulagsbreytingarinnar eru eftirfarandi:
Bréf Skipulagsstofnunar, dags. 18. júní 2020.
Samræmi við svæðisskipulag Suðurnesja
Bent er á að breyting á aðalskipulagi er háð breytingu á svæðisskipulagi Suðurnesja.
Svar:
Breyting á aðalskipulagi verður ekki staðfest fyrr en breyting á svæðisskipulagi hefur öðlast gildi.
Breytingartillaga aðalskipulagsins
1.
Spurt er hvort með breytingunni verði lögð ný vatnslögn inn í þéttbýlið í Vogum og hvort breytingin kalli á framkvæmdir innan þéttbýlisins.
2.
Bent er á að skoða þurfi samspil legu stofnlagnar vatnsveitu við fyrirhugaða legu Suðurnesjalínu 2, sérstaklega hvað varðar hugsanlegan jarðstreng.
3.
Bent er á að „aðrir vegir“ eiga við um vegi sem jafnan eru opnir almennri umferð og því eigi ekki að flokka þjónustuveg vatnsbólsins sem slíkan.
4.
Vakin er athygli á að skv. 32. gr. laga um náttúruvernd eiga sveitarfélög að leggja fram tillögu að vegaskrá um vegi í náttúru Íslands og að þjónustuvegir Suðurnesjalínu og vatnsveitu eiga erindi á slíka vegaskrá.
Svör:
1.
Ný vatnslögn tengist inn á núverandi vatnslögn í námunda við núverandi vatnsból sunnan þéttbýlisins og því verða ekki framkvæmdir innan þéttbýlisins vegna nýs vatnsbóls.
2.
Fyrirhuguð vatnslögn þverar lagnastæði Suðurnesjalínu 2 en komi til þess að jarðstrengur verði lagður meðfram Reykjanesbraut verður strengurinn á meira dýpi en vatnslögnin.
3.
Þjónustuvegurinn sem vitnað er í er að hluta til stígur sem liggur um undirgöng undir Reykjanesbraut, ekki er leyfð umferð vélknúinna ökutækja á þeim vegi. Þjónustuvegurinn verður fjarlægður af uppdrætti aðalskipulagsbreytingar sem „aðrir vegir“.
4.
Í vinnslu er endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins og í þeirri vinnu verður gerð gerð tillaga að vegaskrá um vegi í náttúru Íslands innan sveitafélagsins.
Framsetning
Bent er á að betra væri að sýna framkvæmdarsvæðið heildstætt á yfirlitsuppdrætti þar sem breytingin skiptist á milli þéttbýlis- og sveitarfélagsuppdráttar.
Svar:
Fallist er á þau sjónarmið að gerður verði sérstakur yfirlitsuppdráttur þar sem framkvæmdirnar verða sýndar heildstætt.
Umhverfismat
Bent er á að lagning stofnlagnar vatnsveitu og gerð þjónustuvegar teljast tengdar framkvæmdir við vatnsveituna.
Bent er á að lögn og vegur fara um svæði sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd. Í ljósi þess telur Skipulagsstofnun rétt að skoða aðra valkosti um legu lagnar og þjónustuvegar.
Skipulagsstofnun telur að setja þurfi skilmála um fyrirkomulag framkvæmda vegna áhrifa á jarðmyndanir og menningarminjar í deiliskipulagi eftir samráð við MI og UST. Þá þarf að gera betur grein fyrir áhrifum sem framfylgd deiliskipulagsins hefur á þessa jarðmyndanir og menningarminjar.
Svar:
Skilmálar í deiliskipulagi vatnsbólsins vegna framkvæmda við vatnsból verða einnig uppfærðir í samræmi við samráð við MI og UST ásamt sem umhverfismat deiliskipulagsins verður uppfært í samræmi við niðurstöðu umhverfisáhrifa sem koma fram í fyrirspurn un vatnsbólið.
Bréf eigenda 59,06 % Heiðarlands Vogajarða, dags. 24. júní 2020.
Breytingartillögur:
1.
Gert verði ráð fyrir sex borholum innan brunnsvæðis/brunnsvæða, þ.e.a.s. fjórum borholum til viðbótar þeim tveimur, sem tillagan gerir ráð fyrir. Hér verður talað um holurnar samkvæmt tillögu sveitarfélagsins sem holur A og B, en þær eru ætlaðar vatnsveitu Sveitarfélagsins Voga. Talað er um viðbótarholurnar samkvæmt tillögu umbjóðenda minna sem holur C, D, E og F., og eru þær ætlaðar til vatnstöku í almennum viðskiptatilgangi. Miðað verði við 25 l/sek úr hverri holu.
2.
Kveðið verði á um það í skipulagstillögunum, að samtímis því að framkvæmdum við vatnsból fyrir Sveitarfélagið sunnan Reykjanesbrautar verði lokið (holur A og B), þá falli úr aðalskipulagi og deiliskipulagi núverandi vatnstökusvæði norðan Reykjanesbrautar, þ.e. vatnsból ásamt brunn- og grannsvæði.
3.
Aflétt verði vatnsvernd norðan línuvegar fyrir Suðurnesjalínu 1 og á Vogastapagrágrýtinu, þegar vatnsveita Sveitarfélagsins Voga tekur í notkun þær borholur, sem henni eru ætlaðar (A og B). Þetta svæði verði þá ætlað fyrir íbúðabyggð og mengunarlitla atvinnustarfsemi.
4.
Tillaga sveitarfélagsins gerir ráð fyrir niðurgrafinni stofnlögn vatnsveitu frá fyrirhuguðu vatnsbóli sveitarfélagsins að þéttbýlinu í Vogum (fyrir holur A-B). Tillaga umbjóðenda minna er, að við hlið hennar verði gert ráð fyrir annarri lögn frá holum C, D, E og F, sem nái norður fyrir Reykjanesbraut, en ekki lengra í bili.
Svör:
1.
Skipulagsnefnd er þeirrar skoðunar að þessi skipulagsbreyting eigi einungis við um neysluvatnsöflun fyrir sveitarfélagið.
2.
Núverandi vatnsból norðan Reykjanesbrautar verður í notkun þar til nýtt vatnsból sunnan Reykjanesbrautar verður tilbúið til notkunar. Vegna þess er ekki talið rétt að fella núverandi vatnsból norðan Reykjanesbrautar út úr aðalskipulagi að sinni.
Eins og kemur fram í breytingu á aðalskipulagi verður gerð önnur breyting á aðalskipulagi gerð þegar nýtt vatnsból hefur verið tekið í notkun sem fellst í því að brunn- og grannsvæði núverandi vatnsbóls norðan Reykjanesbrautar verður fellt út úr aðalskipulagi.
3.
Eins kemur fram í svari hér að ofan verður vatnsvernd á grannsvæði norðan Suðurnesjalínu aflétt með breytingu á aðalskipulagi þegar nýtt vatnsból verður tekið í notkun.
Svæðið er skilgreint sem óbyggð svæði og ekki er gert ráð fyrir að breyting verði þar á. Í gildandi aðalskipulagi er sú stefnumörkun að efla enn frekar þéttbýliskjarnann í Vogum, en að uppbygging íbúðarsvæða utan hans verði takmörkuð. í greinargerð aðalskipulagsins kemur einnig fram að óskað hafi verið eftir að skilgreina byggingarsvæði á umræddum svæðum norðan Reykjanesbrautar en ekki er talið raunhæft að það verði innan skipulagstímabilsins (2028). Jafnframt er tekið fram að ekki sé útilokað að uppbygging íbúðarsvæða verði á áðurnefndum svæðum eftir tímabil aðalskipulagsins.
4.
Skipulagsnefnd er þeirrar skoðunar að þessi skipulagsbreyting eigi einungis við um neysluvatnsöflun fyrir sveitarfélagið.
-
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga - 17
Málið var áður til umfjöllunar á 15. fundi nefndarinnar þ. 15.7.2020. Lokið er við endurnýjun á umferðaskiltum og merkingum í sveitarfélaginu.
Afgreiðsla Skipulagsnefndar:
Málið kynnt. Skipulagsnefnd óskar eftir samanburði verkefna og aðgerða sem þegar hefur verið ráðist í og upptalningu á þeim liðum sem eftir eru.
Forseti gefur orðið laust um fundargerðina.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs á einstökum erindum í fundargerðinni. Samþykkt samhljóða með sjö atkvæðum.
Til máls tóku: JHH, BBÁ, ÁE, IG.
Fulltrúi L-listans leggur fram eftirfarandi bókun:
Atvinnuleysi er ógn við framfærslu einstaklinga, nú eru nú eru hér í Vogum um 100 á atvinnuleysisskrá og 15 á hlutabótum. Þetta samsvarar um 13-14% atvinnuleysi í sveitarfélaginu sem er í samræmi við spá Vinnumálastofnunar fá miðjum ágúst. Vonandi mun viljayfirlýsing um sköpun starfa á Suðurnesjum sem undirrituð var 17.09.2020 og sveitarfélagið er aðili að, ásamt tillögum ríkisstjórnarinnar um menntanet á Suðurnesjum sem ákveðið var á að leggja 300 milljónir til ríkisstjórnarfundi í gær verða til að milda það högg sem atvinnuleysið óhjákvæmilega veldur í okkar sveitarfélagi.
Forseti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun:
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga beinir ákalli til ríkisstjórnar og alþingismanna um að vinna með sveitarfélögum á Suðurnesjum og aðilum vinnumarkaðarins að því að leita allra mögulegra leiða til þess að mæta þeim miklu áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir og leita leiða til að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju. Bæjarstjórn skorar á ríkisvaldið að styðja við sveitarfélagið vegna mikils samdráttar í tekjum þess, þannig að hægt verði að halda uppi eðlilegri þjónustu við íbúa.