Fréttatilkynning frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
Samgönguráðherra og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa sent frá sér yfirlýsingu um að tryggja verði að grunnþjónusta hins opinbera skerðist ekki þrátt fyrir tekjusamdrátt og kostnaðarhækkanir.
Í yfirlýsingunni segir meðal annars að Lánasjóður sveitarfélaga ohf. hafi verið sveitarfélögunum traustur bakhjarl um árabil og ástæða sé til að kanna möguleika á að styrkja hann í þágu sveitarfélaga. Samgönguráðherra og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga styðja framkomna áætlun lánasjóðsins um lánsfjáröflun fyrir sveitarfélögin og hvetja Seðlabanka Íslands og lífeyrissjóði landsmanna til að koma að því af fullum þunga.
Þá segir í yfirlýsingunni að Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðuneyti sveitarstjórnarmála muni beita sér fyrir auknu og nánara samráði ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál og framkvæmd opinberrar þjónustu.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
YFIRLÝSING
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og
stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
um aukið samstarf vegna stöðu efnahagsmála
Í þeim efnahagsþrengingum sem landsmenn standa nú frammi fyrir er brýnt að ríki og sveitarfélög standi þétt saman. Tryggja verður að grunnþjónusta hins opinbera skerðist ekki, þrátt fyrir tekjusamdrátt og kostnaðarhækkanir. Sveitarfélögin gegna afar mikilvægu hlutverki í velferðarþjónustunni á sviði fræðslu- og félagsþjónustu sem á tímum sem þessum er nauðsynlegt að njóti forgangs.
Nú ríður á að innan sveitarstjórna ríki einhugur og samheldni. Styrkur sveitarfélaga til að takast á við þann efnahagsvanda sem nú er við að glíma er mismikill. Hvatt er til þess að sveitarfélög endurskoði fjárhagsáætlanir sínar og geri aðgerðaáætlanir þar sem forgangsröðun verkefna miði að því að treysta stoðir grunnþjónustunnar.
Lánasjóður sveitarfélaga ohf. hefur verið sveitarfélögunum traustur bakhjarl um langt árabil og hefur mikilvægi hans fyrir sveitarfélögin aldrei verið meira en nú. Ástæða er til þess að kanna möguleika á frekari styrkingu hans í þágu sveitarfélaga. Samgönguráðherra og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga styðja framkomna áætlun lánasjóðsins um lánsfjáröflun fyrir sveitarfélögin og hvetja Seðlabanka Íslands og lífeyrissjóði landsmanna til að koma að því máli af fullum þunga. Þannig má tryggja að þau sveitarfélög sem á þurfa að halda geti lokið umsömdum framkvæmdum, endurskipulagt fjárhag sinn og styrkt lausafjárstöðuna.
Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðuneyti sveitarstjórnarmála munu beita sér fyrir auknu og nánara samráði ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál og framkvæmd opinberrar þjónustu. Í því skyni munu ráðherra sveitarstjórnarmála og forysta sambandsins eiga tíða samráðsfundi og auka gagnkvæmt upplýsingaflæði um fjármál ríkis og sveitarfélaga. Meginmarkmið aðila er að vinna sameiginlega að því treysta velferð landsmanna til framtíðar.
Reykjavík 10. október 2008
Kristján L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Halldór Halldórsson formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga