Vorverkin og umhverfisvika

Nú er sólin að hækka á lofti, snjórinn búinn að leysa og hitinn að ná að yfirbuga frostið. Þá förum við að huga að vorverkum. Á vegum sveitarfélagsins er sópun hafin, sem er iðulega eitt fyrsta vorverkið.

Undanfarin ár hefur verið sérstök umhverfisvika í Vogum á vordögum. Nú hefur verið ákveðið að umhverfisvikan hefjist föstudaginn 1. maí og standi til laugardagsins 9. maí. Líkt og í fyrra verður bænum verður skipt í þrjú hverfi, gult, rautt og grænt á sama hátt og á Fjölskyldudaginn. Vonir standa til þess að íbúar taki höndum saman um að hreinsa og fegra sitt nánasta umhverfi og hvetji hver annan til góðra verka þannig að þeirra hverfi verið snyrtilegasta hverfi bæjarins. Vikan endar laugardaginn 9. maí með því að boðað verður til lokahófs við Íþrótta- og félagsmiðstöðina.

Gámasvæði Kölku við höfnina verður með rýmri opnunartíma og hægt er að hafa samband við bæjarskrifstofu og óska eftir því að þungir hlutir verði sóttir á vörubíl.

Opnunartími gámasvæðisins og nánari útfærsla umhverfisvikunnar verður auglýst þegar nær dregur.

Vakin er athygli á því að Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Starfsfólk sveitarfélagsins og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja verða á ferðinni næstu vikurnar og munu merkja númerslausa bíla og annað slíkt sem óprýði er að. Sem kunnugt er er hægt að skila bílum inn til endurvinnslu og fá 15.000 kr í skilagjald.

Jafnframt mega lóðarhafar sem ekki hafa sinnt frágangi lóða sinna og húss í samræmi við byggingareglugerð eða úthlutunarskilmála lóða, eiga von á bréfi með áminningu um að klára þau verkefni hið fyrsta. Gott er að nýta tækifærið í umhverfisvikunni til að vinna ókláruð verk.

Bærinn okkar er snyrtilegur og fallegur og við verðum öll að leggjast á eitt við að halda honum þannig. Sveitarfélagið mun vinna að ýmsum umhverfisverkefnum í sumar, sérstaklega í nágrenni Vogatjarnar og í Aragerði. Við skulum leggja metnað okkar í að bærinn verði okkur öllum til sóma í sumar. Sveitarfélagið Vogar veitir árlega umhverfisverðlaun til þeirra sem best hafa staðið sig við fegrun umhverfis síns. Hver veit nema þitt hús verði tilnefnt í ár. 

Nánari upplýsingar um endurvinnslu og umhverfismál má finna á umhverfissíðunni.

Myndin er frá Minna Knarrarnesi sem var eitt þeirra húsa sem fékk viðurkenningu umhverfisnefndar árið 2008.

Gleðilega páska

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri