Vogatjörn. Grein eftir Þorvald Örn Árnason líffræðing

Vogatjörn er í hjarta þéttbýlisins í Vogum og eitt helsta bæjarprýði staðarins. Hún er rétt við sjóinn og höfnina og grunnskólinn Stóru-Vogaskóli stendur við hana. Norðurbakkinn er manngerður en aðrir bakkar hennar eru vaxnir náttúrulegum gróðri. Stór hólmi er í Vogatjörn. Hann er sléttur og láglendur, vaxinn votlendisgróðri og fer oft á kaf á veturna. Vogatjörn er rúmlega 2 hektarar að stærð, þar af er  hólminn u.þ.b. ½ hektari.

Vatnið í tjörninni er ferskt en verður stöku sinnum örlítið salt. Allt aðstreymi vatns er neðanjarðar, þ.e. grunnvatn úr hrauninu ofanvið. Enginn ós er til sjávar heldur seytlar vatnið þangað gegnum jarðveginn í bakkanum. Vatnsborðið er talsvert breytilegt og fer mest eftir því hve mikið rignir. Það er að jafnaði hæst á veturna og lækkar á sumrin og getur munað allt að hálfum metra. Tjörnin er mis djúp, allt að meter á dýpt. Botninn er hörð klöpp, sökkvandi dý eða eitthvað þar á milli.
Vogatjörn er á náttúruminjaskrá ásamt Síkistjörn sunnar í Vogum og 10 tjörnum á Vatnsleysuströnd. Í náttúruminjaskrá segir að þær séu ,,lífríkar tjarnir með fjölbreyttu fuglalífi.” 

Lesið nánar í meðfylgjandi grein eftir Þorvald Örn Árnason líffræðing