Vogatjörn

Á Vatnsleysuströnd eru margar tjarnir, þó nokkrar þeirru eru á náttúruminjaskrá svo sem Síkistjörn, Vogatjörn, Mýrarhúsatjörn, Gráhella, tjarnir við Hlöðunes, Ásláksstaðatjörn, Sjónarhólstjörn, Knarrarnestjörn, Landakotstjörn, Kálfatjarnartjörn og Bakkatjörn, ásamt nánasta umhverfi. Þessar tjarnir eru á Ströndinni allt frá Stapanum og til Bakka sem er bær norðvestan við Kálfatjörn. Ein tjörnin, Vogatjörn, er sem næst í miðjum Vogum. Í henni er hólmi, nokkuð mikið af sefi og það virðist góð tenging við sjó. Tjörnin er sumsstaðar djúp. Fullvaxna menn prófa vöðlur þar, í vatni upp undir hendur. Annars staðar er hún grunn. Sefið hefur náð sér vel af stað og hólminn er kafloðinn. Stundum myndast tengingingar milli lands og hólma.
Börn hafa gaman af að vera við tjörnina. Veiða síli, vaða og fleira skemmtilegt að sumri. Þegar frystir þá er ágætt að fara á skauta.

Fuglar sjást við Vogatjörn á vorin og aftur að hausti. Mávar (hettumávur og svartbakur) eru þaulsetnir, kría gargar en ekki sést hreiður. Gæsir eru tíðir gestir og nokkrar tegundir anda. Fyrir fjórum árum síðan þá var fullvíst að enginn fugl gerði hreiður í hólma eða við tjörn. Þá var farið að huga að endurbótum og umhirðu. Tjörnin var dýpkuð, hólminn sleginn, sef tekið að hluta. Kantar voru endurgerðir, ræsi milli sjávar og tjarnar hreinsað. Allt þetta var gert í samráði við fuglafræðinga, votlendisfræðinga og fleiri og fleiri.

Í Vogum eru 1133 skoðanir á hvernig eigi að hirða Vogatjörn og næsta umhverfi. Skoðanir eru eflaust fleiri meðal brottfluttra. Ýmist heyrist að hólminn hafi verið nytjaður eða að hann hafi aldrei verið nytjaður, aldrei. Þá heyrist að það sé fráleitt að hafa dýpkað, að hafa ekki dýpkað meira o.s.frv.

Ég bý við Vogatjörn. Sé hana út um eldhúsgluggann minn. Fer framhjá oft á dag. Í vor voru gæsir og álftir við tjörnina. Ég er viss um að báðar gerðu hreiður. Svo voru endur, fullt af öndum. Nú um daginn taldi ég sex unga. Þeir voru fleiri í lok júní. Ég er viss. Ég var lengi við tjörnina, horfði og lagði á minnið, taldi og skoðaði aftur. Ég sá fjórar endur og sex unga. Það segir mér að það hafa allavega verið tvö hreiður.

Nú er aftur komið að því að taka ákvörðun hvað við gerum í haust eða að ári. Mikið til vélar þó handavinnan sé nokkuð mikil. Á að taka sef, slá, dýpka? Gera eitt af þessu? Ef svo er þá hvað?

Eirný Vals