Staða og framtíð sveitarfélaga
Fyrr í vikunni boðaði verkefnastjórn um eflingu sveitarstjórnarstigsins fulltrúa sveitarfélaganna á Suður-nesjum til samráðsfundar. Samkvæmt verkefna-áætluninni eru megin markmið verkefnisins að leggja fram tillögur sem m.a. stuðla að stærri, öflugri og sjálbærum sveitarfélögum; breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitar-félaga; markvissari samskiptum ríkis og sveitarfélaga; nýtingu rafrænnar tækni við stjórnsýslu og lýðræðislegri þátttöku íbúa í stefnumörkun og ákvarðanatöku á öllum sviðum. Fundurinn var ágætlega sóttur og góðar umræður voru um málefnið. Það er athyglisverð staðreynd að sveitarfélögin í landinu eru 74 talsins, en þeim hefur fækkað talsvert frá því þegar þau voru flest. Á okkar svæði er Reykjanesbær fjölmennasta sveitarfélagið með sína liðlega 17 þúsund íbúa, en það fámennasta eru Vogar með um 1.200 íbúa. Um 43 sveitarfélög í landinu hafa færri íbúa en Vogar, sem segir heilmikið um hversu mörg sveitarfélög þurfa að reiða sig á samstarf um úrlausn ýmissa verkefna, sem fámenn sveitarfélög hafi ekki burði til að sinna. Umræðan um eflingu sveitarstjórnarstigsins er þýðingarmikil, ekki síst ef takast á að færa fleiri verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna.
Þingmenn í heimsókn
Þessa vikuna er kjördæmisvika á Alþingi. Þingmenn Suðurkjördæmis gerðu víðreist og heimsóttu sveitarstjórnarfólk í kjördæminu, sem nær allt frá Höfn í Hornafirði hingað að Vogum. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum áttu góðan fund með þingmönnum s.l. miðvikudag, þar sem tækifæri gafst til að hittast, spjalla og reifa þau mál sem brýnust eru og efst eru á baugi á hverju svæði. Fundir sem þessir eru mjög gagnlegir, að ekki sé nú minnst á mikilvægi þess að efla persónuleg kynni sveitarstjórnarfólks og þingmanna. Kærar þakkir fyrir komuna og góðan fund, ágætu þingmenn.
Vetrarfundur ferðaþjónustunnar
Markaðsstofa Suðurnesja og Reykjanesjarðvangur (sem nú heitir hinu virðalega nafni Reykjanes UNESCO Global Geopark) héldu vel heppnaðan vetrarfund ferða-þjónustunnar í gær (fimmtudag). Á fundinum voru flutt þrjú mjög áhugaverð erindi um málefni jarðvanga og ferðaþjónustunnar. Að loknum erindum voru veitt í annað sinn hvatningaverðlaun og þakkarverðlaun ferða-þjónustunnar á Reykjanesi. Að þessu sinni hlutu veitingahúsið Vitinn og Þekkingasetur Suðurnesja í Sandgerði hvatningaverðlaunin, en þau hafa í sameiningu unnið að rannsóknum og nýtingu ýmsum krabba-tegundum, þ.m.t. grjótkrabba. Johan D. Jónsson hlaut þakkarverðlaunin, fyrir áralangt starf sitt á vettvangi ferðaþjónustunnar hér á svæðinu.
Vel heppnað skólaþing
Nemendafélag Stóru-Vogaskóla hélt vel heppnað skólaþing í byrjun mánaðar, sem heppnaðist í alla staði vel. Yfirskriftin að þessu sinni var „metnaður“, m.a. var fjallað um hvernig mætti bæta metnað í námi og lífinu. Hápunktur þingsins var heimsókn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, sem ávarpaði alla nemendur skólans auk þess sem hann flutti hvatningarerindi fyrir nemendur eldri árganganna. Nemendafélagið og stjórn þess fær (h)rós í hnappagatið fyrir framtakið, sem og auðvitað skólastjórnendur og starfsfólk skólans.
Að lokum
Það fer ekki mikið fyrir vetrarhörkunum nú þegar Þorri er á enda. Á morgun (laugardag) er Þorraþræll, Góa hefst á sunnudegi með hinum dásamlega Konudegi. Til hamingju með daginn allar konur þessa lands, megi hann verða til þess að vel verði dekrað við ykkur, sem og auðvitað alla aðra daga. Bestu óskir um góða helgi!
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri.