"Vogar færast enn í vöxt"

Þann 15. febrúar var skrifað undir samstarfssamning við Trésmiðju Snorra
 Hjaltasonar ehf. um byggingu á 60 íbúðum í Vogum. Þessi samningur er
 upphafið að frekari útrás hreppsins en nú eru liðin rúmlega 5 ár frá
 markaðsátakinu "Vogar færast í vöxt". Ef byggingaáform Trésmiðju Snorra
 ganga eftir má gera ráð fyrir að íbúar hér nái tölunni 1.300 árið 2008. Það
þýðir að á 9 ára tímabili fjölgi íbúum um tæplega 100%.

Byggð verða þrjú fjölbýlishús við Heiðargerði (þegar er byrjað á tveimur
þeirra) og blönduð byggð verður við Heiðardal, Miðdal og Lyngdal. Þar munu
rísa einbýlishús, parhús og raðhús. Einstaklingar munu einnig byggja á
svæðinu en hreppsnefnd hefur heimild til að úthluta 16 lóðum til
einstaklinga (þegar hefur 12 þeirra verið úthlutað).

Uppbyggingin verður frekar hröð, tvö fjölbýlishúsanna verða tilbúin næsta
haust. Á vormánuðum verður hafist handa í "Dalahverfinu" og byrjað á
raðhúsum við Heiðardal.

Í samningnum er einnig gert ráð fyrir að Trésmiðja Snorra gangi frá svæðunum
í heild sinni með göngustígum og leiksvæðum.

 

 

 

Frá undirritun samninga.