Vistvernd í verki

Vatnsleysustrandarhreppur hefur gert samning við Landvernd um þátttöku í verkefninu Vistvernd í verki. Á myndinni sést þegar Jóhanna Reynisdóttir sveitarstjóri og Bryndís Þórisdóttir, umsjónarmaður Landverndar með verkefninu, undirrita samning þar um 19. okt. 2004.

Helga Ragnarsdóttir hefur sótt námskeið á vegum Landverndar til að öðlast réttindi sem leiðbeinandi. Hennar hlutverk er að koma hópum af stað og aðstoða þá. Undirritaður mun einnig sinna verkefninu.

 

Hvað er Vistvernd í verki?
Vistvernd í verki er alþjóðlegt umhverfisverkefni fyrir heimili. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl skref fyrir skref á þeim hraða sem hver velur sér. Verkefnið er hið eina sinnar tegundar í heiminum svo vitað sé og hafa kannanir sýnt að það skilar miklum og varanlegum árangri í bættri umhverfismeðvitund og hegðun.

Ísland er eitt af þeim 17 löndum sem verkefnið hefur fest rætur í. Alþjóðlegt heiti verkefnisins er GAP, en það stendur fyrir Global Action Plan. Verkefnið er sannkallað grasrótarstarf og fellur því afar vel að áformum stjórnvalda um staðardagskrá 21. Það stuðlar að því að stjórnvöld nái settum markmiðum í umhverfismálum og um vistvænt Ísland.

Hvað gera visthópar?
Vistvernd í verki byggist á hópstarfi þar sem fulltrúar 5 til 8 heimila koma saman til fræðslufunda á 1-2 vikna fresti á 8-10 vikna tímabili. Hverjum hópi fylgir einn leiðbeinandi og allir þátttakendur fá handbók þar sem finna má góð ráð og skrá árangur starfsins. Leiðbeinandi stýrir fyrsta og síðasta fundi en þess á milli starfar hópurinn sjálfstætt en með stuðningi leiðbeinanda.
Í bókinni eru tekin fyrir fimm viðfangsefni; sorp, orka, samgöngur, innkaup og vatn. Fundirnir eru notaðir til að fara yfir ýmis atriði í rekstri heimilisins og til að finna leiðir til úrbóta. Hver fundur er helgaður einu viðfangsefni og tekur að hámarki tvær klukkustundir.

 

Fyrsti hópurinn í Vatnsleysustrandarhreppi er kominn vel af stað

Í fyrsta hópnum eru 7 fjölskyldur, fimm úr Vogum og tvær af Ströndinni. Við höfum hist fjórum sinnum og haft af því gagn og gaman. Við sjáum fram á talsverðan sparnað í krónum og aurum auk þess að heimili okkar muni valda minna álagi á umhverfið. Svo er mjög gaman að heimsækja hvert annað, ræða saman og bera saman bækur okkar um heimilishaldið.

Hópurinn ætlar að kynna starf sitt og niðurstöður í nóvember þegar hann lýkur störfum og skrá þátttakendur í nýjan hóp sem væntanlega myndi byrja strax eftir áramót. Búast má við einhverjum uppátækjum sem verða kynnt þegar þar að kemur.

 

Nánari upplýsingar veita

Helga Ragnarsdóttir  straumur@torg.is  s. 424 6724

Þorvaldur Örn Árnason, valdur@gi.is  s. 424 6841

Landvernd  http://www.landvernd.is/vistvernd/flokkar.asp?flokkur=1012  s. 552 5242

 

Þorvaldur Örn Árnason, formaður Umhverfisnefndar Vatnsleysustrandarhrepps