Vorið er komið og grundirnar gróa. Þá er ráð að taka til við vorverkin í garðinum og sínu nánasta umhverfi.
Umhverfisvika Sveitarfélagsins Voga er í ár haldin undir slagorðinu ,,Vertu til er vorið kallar á þig!”, en það vísar til þess að allir íbúar sveitarfélagsins taki höndum saman um að gera fallegan bæ snyrtilegan fyrir sumarið. Sveifli haka og leggi hönd á plóg !
Í ár verður sú nýbreytni að bænum verður skipt í þrjú hverfi, gult, rautt og grænt á sama hátt og á Fjölskyldudaginn. Vonir standa til þess að íbúar taki höndum saman um að hreinsa og fegra sitt nánasta umhverfi og hvetja hver annan til góðra verka. Metnaður og keppnisskap íbúanna mun án efa verða til þess að samkeppni skapast um hvaða hverfi stendur sig best. Vikan endar laugardaginn 24. maí, sama dag og Evróvisjónkeppnin fer fram og munu hverfin vafalaust gera eitthvað skemmtilegt saman í lok umhverfisvikunnar. Hverfin grilla saman á sama hátt og gert er á Fjölskyldudaginn. Boðið verður upp á pylsur, en fólk getur að sjálfsögðu komið mat til að setja á grillið.
Gámasvæði Kölku við höfnina verður með rýmri opnunartíma og mun starfsfólk sveitarfélagsins verða á ferðinni og reiðubúið að aðstoða við að koma rusli og lífrænum úrgangi á gámasvæðið.
Bærinn okkar er snyrtilegur og fallegur og við verðum öll að leggjast á eitt við að halda honum þannig. Við skulum leggja metnað okkar í að bærinn verði okkur öllum til sóma í sumar.
Hér má nálgast gagnlegar upplýsingar, svo sem opnunartíma Gámasvæðis Kölku.