Það mættu aftur um 30 manns, m.a. nokkur börn, enda var þetta stutt og létt ganga. Við nutum þess hve Haukur Aðalsteinsson veit mikið um hverfið sitt og um sögu okkar hér yfirleitt. Áfram var pælt í sögusviði bókar Jóns Dan, 1919, bæði persónum, húsum og náttúrunni sem fólk lifði á. Til dæmis hugað að því hve mikið þang og þari var notað bæði til eldiviðar (vondur eldiviður) og til áburðar í matjurtagarða. Stoppað var við grunn Suðurkotsskóla sem síðar hét Brunnastaðaskóli og Þorvaldur sagði frá sögu þessa merka skóla okkar sem nú er að verða 143 ára gamall. Fjallað um líf útvegsbænda í hverfinu, sem um 1919 hefur verið nokkuð basl, en blómatíminn var á 19. öld, eftir að betri bændurnir eignuðust sjálfir jarðirnar og meðan fiskur var undir hverjum steini. Brunnastaðahverfi var aðal byggðarkjarni sveitarinnar þar til Vogar tóku við um miðja 20. öld.
Á leiðinni úr Brunnastaðahverfi í Voga var gengið framhjá 5 eyðibýlum: Grund (þar sem nú er sumarbústaður), Vorhúsum, Hausthúsum, Hvammi (þar sem áð var) og Grænuborg. Einnig tveimur útgerðarstöðunum á Brunnastaðatanga: Bieringstanga, Klapparholti og einum til. Endað var við höfuðbýlið Stóru-Voga, en þar hefst líka síðasta gangan, á mánudag kl. 16.