Vel heppnaður Fjölskyldudagur

Fjölskyldudagurinn í Vogum 2007 var hin mesta skemmtun og verður örugglega lengi í manna minnum. Veðrið lék við okkur og allir í sólskinsskapi.

Dagskráin var metnaðarfull og vel skipulögð í ár og gátu allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Dagurinn hófst í þykkri þoku, en rétt um það bil sem dorgveiðikeppnin hófst rofaði til og sólin brast fram. Á bryggjunni komu saman rúmlega 100 manns og voru aflabrögð góð.

Mætingin í dorgveiðikeppnina gaf tóninn fyrir daginn og voru allir viðburðir vel sóttir. Í öllum hverfum myndaðist mikil stemning og var sérstaklega skemmtilegt að sjá íbúana koma saman og efla tengslin sín á milli. Hverfagrillin eru frábær vettvangur fyrir nýja og gamla íbúa að kynnast og efla bæjarbraginn. Lokahnykkur á frábærum degi var við varðeldinn í Aragerðinu, þar sem hverfin kepptu sín á milli og tóku síðan lagið við varðeldinn. Líklega er þetta best sótti Fjölskyldudagurinn til þessa og stemningin frábær.

Á vef Víkurfrétta, vf.is, má sjá fjölmargar myndir frá Fjölskyldudeginum. Þær bera með sér hvað dagurinn var vel heppnaður. Gleðin skín úr hverju andliti.

Allir þeir sem komu að skipulagi og framkvæmd hátíðarinnar eiga heiður skilinn.  Félagasamtökin í bænum, starfsfólk sveitarfélagsins og ekki síst íbúarnir lögðu sig alla fram. Þegar allir leggjast á eitt verður afraksturinn öllum til sóma.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri