Vel heppnaðir fjölskyldudagar í Vogum

Helgina 16. – 19. ágúst voru hinir árlegu fjölskyldudagar haldnir hátíðlegir í Vogum í 15. sinn. Hátíð tókst einstaklega vel í ár, enda veðrið gott alla dagana. Hátíð hófst á fimmtudegi með fjölskyldugolfmóti á Kálfatjarnarvelli. Á föstudeginum var nýr og glæsilegur knattspyrnuvöllur vígður. Fulltrúar frá KSÍ mættu á svæðið og færðu UMF Þrótti gjöf í tilefni dagsins. Alexandra Líf Ingþórsdóttir klippti á borðann, en hún var þúsundasti íbúa Voga þegar hún fæddist í nóvember 2005. Að lokinni vígslu tóku heimamenn á móti liði Grundfirðinga í deildarkeppninni og unnu glæstan sigur á gestunum með fjórum mörkum gegn tveimur. Um kvöldið var síðan varðeldur í fjörunni við Stóru-Voga þar sem trúbadoradúettinn Heiður skemmti með hljóðfæraleik og söng.


Á laugardeginum hófst dagskráin með dorgveiðikeppni, síðan tók við kassabílarallý og keppt var í þríþraut (sundi, hlaup, hjólreiðar) milli hverfa. Þá kepptu formenn nefnda í ökuleikni og gestir gátu jafnframt prófað veltibílinn sem var á staðnum. Hátíðardagskráin sjálf hófst síðan kl. 14 í Aragerði með því að forseti bæjarstjórnar flutti ávarp og afhenti síðan umhverfisviðurkenningar sveitarfélagsins. Fallegasti garðurinn í ár er við Brekkugötu 15, jafnframt fékk garðurinn við Miðdal 3 viðurkenningu fyrir fallega lóð við nýlegt hús. Þá var Golfklúbbi Vatnsleysustrandar veitt verðlaun fyrir snyrtilegan og fallegan golfvöll. Þessu næst tók við fjölbreytt dagskrá með margvíslegum skemmtiatriðum, heimsókn fornbíla, starfrækslu sölutjalda, listflugi, karmelludreifingu, sápuboltamóti og margvíslegri annarri afþreyingu.


Hlé var gert á dagskránni um kvöldmatarleytið, en síðan var hafist handa að nýju eftir að skrúðgöngur úr hverfunum mættu á svæðið eftir að hafa grillað saman í hverfunum. Kvölddagskráin samanstóð af frábærum skemmtiatriðum fyrir alla aldurshópa. Dagskráin náði síðan hámarki og lauk með glæsilegri flugeldasýningu sem Björgunarsveitin Skyggnir annaðist.


Á sunnudeginum voru ýmsir menningarviðburðir á dagskrá, m.a. lista- og handverkssýning, bæjarganga með leiðsögn, sýning þjóðlagahóps frá Tékklandi og kvikmyndasýningu í Hlöðunni.
Sveitarfélagið Vogar þakkar öllum sem lögðu hönd á plóg fyrir vel unnin störf og góða framkvæmd. Hátíðin ber vott um góða samstöðu og samhent átak sveitarfélagsins og starfsmanna þess ásamt þeim fjölmörgu frjálsu félagasamtökum sem lögðu sitt að mörkum til að gera hátíðina jafn glæsilega og raun bar vitni.

Hægt er að sjá fleiri myndir hér:

Myndaalbúm, myndir tók Hákon Harðarson fh. Sv. Voga

Myndaalbúm, myndir tók Steinar Smári Guðbergsson