Fjölskyldudagar Sveitarfélagsins Voga voru haldnir 14. - 17.ágúst sl. í brakandi blíðu. Þar var margt um manninn og gátu allir fundið eitthvað við sitt hæfi.
Hátíðin byrjaði á fimmtudeginum með fjölskyldudagsgolfi.
Á föstudeginum var ný og glæsileg áhorfendastúka vígð og svo tók við brekkusöngur í Aragerði undir stjórn Ingó Veðurguðs.
Laugardagurinn var stútfullur af viðburðum og má þar t.d nefna, hoppukastalar, bílasýning, Brúðubíllinn, söng- og hæfileikakeppni, sápuboltamót, fjársjóðsleit og margt fleira. Um kvöldið var svo stórglæsileg tónlistarhátíð sem endaði með glæsilegri flugeldasýningu að hætti Björgunarsveitarinnar Skyggnis.
Á sunnudeginum var fjölskyldudorgveiði og skemmtisigling, söguganga, þar sem m.a voru skoðuð nýuppsett upplýsinga- og söguskilti í Aragerði og við sjárvarsíðuna.
Sunnudagskvöldið skartaði sínu fegursta og boðið var uppá hressandi söngdagskrá í Tjarnarsal. Þar sló strengjasveitin G-strengirnir á létta strengi og síðar komu Davíð Ólafsson bassi og Stefán Helgi Stefánsson tenór og léku á alls oddi.
Fjölskyldudagarnir eru samstarfsverkefni félagasamtaka í Vogunum ásamt Sveitarfélagi Voga.
Vélarvinir Voga
Ungmennafélgið Þróttur
Kvenfélagið Fjóla
Björgunarsveitin Skyggnir
Lionsklúbburinn Keilir
Golfklúbbur Vatnleysustrandar
Smábátafélagið Vogum
Hér í myndasafni sveitarfélagsins má sjá myndir frá helginni sem Steinar Smári Guðbergsson tók.