Veðurblíða í Vogum

Veðrið undanfarna daga og vikur hefur verið með besta móti, bjart, þurrt og hlýtt. Hér á vefnum má nálgast upplýsingar um veðurfar í Sveitarfélaginu Vogum. Hita og vindtölur koma frá veðurmæli sem er á Strandarheiðinni, en upplýsingar um skýjafar koma frá Keflavíkurflugvelli. Þessar upplýsingar hafa mælst mjög vel fyrir hjá notendum síðunnar.

Íbúar sveitarfélagsins hafa nýtt góða veðrið vel til að huga að görðum sínum og húsum, auk þess hafa krakkarnir í Vinnuskólanum lagt sig fram um að fegra bæinn okkar. Við eigum öll hrós skilið. Á umhverfissviðinu hefur í sumar verið lögð áhersla á að laga stór opin svæði með tyrfingu og hefur það verkefni gengið vel eins og sjá má við Hafnargötuna.

Fjölskyldudagurinn nálgast og verður haldinn hátíðlegur þann 11. ágúst. Dagskrá verður með hefðbundnu sniði, en að sjálfsögðu bætist eitthvað nýtt við að vanda. Starfsfólk á tómstundasviðinu á veg og vanda að hátíðinni í samstarfi við Íþrótta- og tómstundanefnd og félagasamtökin í bænum. Dagskrá verður auglýst á næstunni.