Undankeppni Samfés

Söngkeppni Samfés, á Suðurlandi & Suðurnesjariðli var haldin með pompi og prakt helgina 9.-11. nóvember hér í Vogum. Helgin gekk frábærlega vel og voru um 400 unglingar sem tóku þátt um helgina. Unglingarnir gistu í grunnskólanum.
Á föstudagskvöldinu var  sundlaugarpartý ásamt því að félagsmiðstöðin var opin fyrir gesti. Á laugardeginum var ýmis afþreying í boði fyrir unglingana t.d. listasmiðja, förðunarsmiðja, pílusmiðja og margt fleira. Á meðan flestir voru í smiðjum voru keppendur kvöldsins í hljóðprufum fyrir kvöldið mikla. Fimmtán félagsmiðstöðvar tóku lagið og var það erfitt val fyrir dómnefndina að velja þar úr þá fimm keppendur sem þóttu skara framúr.

Það var Bólið í Mosfellsbæ sem hreppti fyrsta sætið, en fjórar aðrar félagsmiðstöðvar komust einnig áfram í aðalkeppnina, það voru Féló Vestmannaeyjum, Þruman í Grindavík, Fjörheimar í Reykjanesbæ og Zelsíuz á Selfossi. Stelpurnar okkar, Hekla, Valgerður, Martha og Berglind stóðu sig frábærlega þrátt fyrir það að komast ekki áfram, enda voru lögin hvert öðru betra.

Eftir keppnina var þrusu ball með þeim Dj Óla Geir og Andra Ramirez, og náðu þeir upp alveg gríðalegri stemmningu að þakið ætlaði af húsinu á tímabili. Unglingarnir voru til fyrirmyndar alla helgina og skemmtu þeir sér konunglega. Þær fimm félagsmiðstöðvar sem komust áfram munu taka þátt í aðalkeppni Samfés sem haldin verður í mars á næsta ári.

 

 

Fyrir hönd Félagsmiðstöðvarinnar Borunnar í Vogunum þakka ég öllum þeim unglingum og starfsmönnum sem sóttu keppnina.

Tinna Hallgrímsdóttir