Á Fjölskyldudaginn 8. ágúst 2009 voru veittar umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Voga. Fallegum og vel hirtum húsum og görðum fjölgar stöðugt og gróskumikill gróður setur æ meiri svip á sveitarfélagið. Umhverfisnefnd var því vandi á höndum að velja nokkra aðila til að veita viðurkenningu í ár eins og fyrri ár.
Eftirtaldir eigendur húseigna hljóta umhverfisviðurkenningu árið 2009:
Ragnhildur Hanna Finnbogadóttir og Rúnar Vigfússon Ægisgötu 39, hljóta viðurkenningu fyrir vandaðar endurbætur á eldra húsnæði og glæsilegan garð sem ræktaður hefur verið upp af mikilli alúð með fjölbreyttum gróðri og skemmtilegu skipulagi og þjónar vel íbúum hússins og gleður augu vegfarenda.
Susan Anna Björnsdóttir og Guðlaugur J. Gunnlaugsson Hofgerði 3, hljóta viðurkenningu fyrir fallegan og vel gróinn garð. Garðurinn hefur notið áhuga og alúðar eigenda árum saman.
Grétar I. Hannesson hlýtur viðurkenningu fyrir endurbætur og viðhald á húsi forfeðra sinna, Suðurkoti á Vatnsleysuströnd. Einnig fyrir söfnun og virðingu fyrir gömlum munum sem hann varðveitir í húsinu.
Hvammsgata hlýtur viðurkenningu sem snyrtilegasta gatan með fallegan heildarsvip. Merki verður sett merki við innakstur í Hvammsgötu þar sem kemur fram að gatan hafi hlotið þessa viðurkenningu árið 2009.
Nesbú hlýtur viðurkenningu fyrir snyrtileg hús og umhverfi í Vogum og á Vatnsleysuströnd
Verðlaunagripirnir eru eins og undanfarin ár eftir Guðbjörgu Theodórsdóttur myndlistakonu.