Umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Voga 2008

Á Fjölskyldudaginn 9. ágúst 2008 voru veittar umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Voga. Fallegum og vel hirtum húsum og görðum fjölgar stöðugt í Vogum og gróskumikill gróður setur æ meiri svip á bæinn. Umhverfisnefnd var því vandi á höndum að velja nokkra aðila til að veita viðurkenningu í ár.

Eftirtaldir eigendur húseigna í Vogum hljóta umhverfisviðurkenningu í ár:

Anna Rut Sverrisdóttir og Birgir Þórarinsson fyrir hús og umhverfi Minna-Knarrarness.

Húsið sem er byggt árið 1930 hefur verið endurbyggt og stækkað á smekklegan hátt.  Tún eru ekki nytjuð lengur,  þó slegin reglulega en hólar og votlendisblettur látin halda sér.  Þetta myndar fallega umgjörð um bæinn.  Þó ekki sé búskapur á Minna-Knarrarnesi þá má sannarlega segja að um fallegan sveitabæ sé að ræða sem fellur vel að hinu forna byggðarmynstri Vatnsleysustrandar.

Ingibjörg Bjarnadóttir og Ólafur Herjólfsson, Hvammi, fyrir snyrtilegan garð og hús.
 
 Garðurinn er gamall og gróskumikill og húsinu vel við haldið.  Hugsað er um  plönturnar af alúð í skjólsælum reit og nýgræðingum  plantað úr eigin ræktun.

Þórunn Jónsdóttir og Kolbeinn Sigurjónsson fyrir lóð og hús að Brekkugötu 15.

Húsinu er vel við haldið og lóðin afar snyrtileg þar sem hver kimi er vel nýttur.   Lóðin er sannkallaður sælureitur þar sem skrautmunir og blóm njóta sín.   Götuhlið lóðar er opin svo vegfarendur njóta þess hluta garðsins ekki síður en  íbúarnir. 

Vélaverkstæði VP að Iðndal 6.

 Fyrir umbætur á lóð við fyrirtækið  og góðan árangur í hreinsunarátaki  sveitarfélagsins í maí síðastliðnum.

Verðlaunagripirnir eru eins og undanfarin tvö ár eftir Guðbjörgu Theodórsdóttur myndlistakonu.