Umhverfisviðurkenningar 2020

Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Voga veitir árlega viðurkenningar til einstaklinga og fyrirtækja fyrir góða umhirðu um umhverfi sitt hvort sem það er húsnæði, garðar eða annað. Verðlaunin eru venjulega afhent á Fjölskyldudögum, á sviðinu á laugardagskvöldinu en í ár var ekki um slíkt að ræða og var því tekið hús á þeim sem hlutu viðurkenningarnar og þeim afhent viðurkenningarskjöl. Í ár voru veittar viðurkenningar til fjögurra einstaklinga og einna félagasamtaka.

 

Umhverfisviðurkenning einstaklinga

Miðdalur 3. Björg Leifsdóttir og Þráinn Berg Theódórsson hljóta viðurkenningu fyrri snyrtilega og vel frá gengna lóð. Lóðin er smekklega skipulögð þar sem saman spilar skjólgóður pallur í gróðursælum bakgarði og skemmtilega útfærð götumynd.

Heiðargerði 18. Valtýr R. Gunnlaugsson og Svava Björg Benediktsdóttir hljóta viðurkenningu fyrir snyrtilega og vel hirta eign. Miklar endurbætur hafa farið fram á lóðinni undanfarin ár þar sem smekklega hefur verið hugað að vistlegum íverustað utandyra, í samspili við gróður.

 

Umhverfisviðurkenning til félagasamtaka

Landgræðslu- og skógræktarfélagið Skógfell hlýtur viðurkenningu fyrir metnaðarfullt starf í umhverfismálum. Starfsemi félagsins er eftirtektarverð og öðrum til eftirbreytni. Ekki er einungis hugað að gróðri, uppgræðslu og plöntun heldur einnig þáttum sem lúta að bættu mannlífi og betra samfélagi í Vogum. Félagið hefur viðhaldið skógi að Háabjalla þar sem gróðurreitur hefur stækkað undanfarin ár auk þess að græða upp gróðurvana svæði. Á Háabjalla hafa verið haldnir tónleikar á Fjölskyldudögum og þar hefur verið tekið á móti útskriftarnemendum leikskólans Suðurvalla sem gróðursetja tré. Skógfell hefur í samstarfi við Þrótt, gróðursett við íþróttasvæði bæjarins og unnið með Kvenfélaginu Fjólu að fegrun Aragerðis. Skógfell er samfélags- og gróðurvænt félag sem bætir á metnaðarfullan hátt umhverfið og bæjarbraginn.

 

Hróslisti

Umhverfisnefnd vill hrósa eigendum eftirtalinna eigna fyrir sitt framlag að snyrtilegum bæ.

Vogagerði 5, 20, 29. Mýrargata 6. Heiðargerði 4, 18. Kirkjugerði 14, 16. Akurgerði 1A, 5, 7. Miðdalur 3.

 

Í sveitarfélaginu okkar eru garðar, lóðir og húseignir sem árum saman hafa verið til fyrirmyndar. Nokkur eldri hús hafa fengið andlitslyftingu og við nýbyggingar er einnig vert að veita athygli þeim sem ganga fljótt og vel frá lóðum húsa sinna.

Betur má þó ef duga skal og ef bærinn á að skara fram úr í snyrtimennsku á komandi árum þá þurfa hendur víða að standa fram úr ermum. Góðir hlutir gerast hægt og er vonin að með viðurkenningum, hrósi og áminningum til íbúa breytist ásýnd bæjarfélagsins okkar til batnaðar.