Umhverfisviðurkenningar

Umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Voga 2010

Á Fjölskyldudaginn 14. ágúst 2010 voru veittar umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Voga. Fallegum og vel hirtum húsum og görðum fjölgar stöðugt og gróskumikill gróður setur æ meiri svip á sveitarfélagið. Umhverfisnefnd var því vandi á höndum að velja nokkra aðila til að veita viðurkenningu í ár eins og fyrri ár.

Eftirtaldir eigendur húseigna hljóta umhverfisviðurkenningu árið 2010:

Sæmundur Þórðarson og Anna María Franksdóttir fá viðurkenningu Stóru-Vatnsleysu fyrir snyrtimennsku og frjóa hugsun í garðskreytingum. Þau hafa hugsað vel um þetta merka útvegsbýli og fornan kirkjustað og miðla þekkingu um sögu staðarins.

Eyrún Antonsdóttir og Sverrir Agnarsson, Aragerði 16, fá viðurkenningu fyrir frumlegan og fjölbreytilegan garð til margra ára.

Bryndís Petersen og Leifur Jónsson Brekkugötu 23 fá viðurkenningu fyrir fallegan garð og snyrtilegt hús.

Íbúar Heiðargerðis sunnan Ægisgötu fá viðurkenningu fyrir fallega og snyrtilega götumynd. Merki verður sett við innakstur í götuna þar sem kemur fram að hún hafi hlotið þessa viðurkenningu árið 2010.

Starfsfólk Heilsuleikskólans Suðurvalla fær viðurkenningu fyrir góðar hugmyndir og aðkomu að vel heppnaðri hönnun lóðar leikskólans.

Viðurkenningu fyrir gagngerar og smekklegar endurbætur gamals og sögufrægs húss fær Reykjaprent, eigandi Hábæjar. Syðri hluti Hábæjar var byggður 1921 á grunni eldra húss. Þarna var símstöðin í Vogum 1908-1930 og aftur 1932-1952. Þangað kom fyrsta útvarpið í hreppinn 1926. Sagt er að húsið hafi fyllst á sunnudögum þegar fólk af öðrum bæjum dreif að spariklætt til að hlusta á messu. Í Hábæ var sett upp fyrsta verslunin í Vogum árið 1929 og var hún starfrækt í þessu húsi þar til 1968. Hábær var þannig eins konar miðbær Voga hálfa síðustu öld.

Verðlaunagripirnir eru eins og undanfarin ár eftir Guðbjörgu Theodórsdóttur myndlistakonu.