Umhverfisverðlaun 2007

Sveitarfélagið Vogar veitir árlega umhverfisverðlaun til þeirra sem best hafa staðið sig við fegrun umhverfis síns. Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Voga afhenti umhverfisverðlaun ársins 2007 á Fjölskyldudaginn.

Umhverfismál eru ofarlega á baugi í Vogum og hafa fjölmargir húseigendur hugað vel að eignum sínum og görðum. Sérstaklega er ánægjulegt hve margir eigendur eldri húsa hafa tekið til við endurbætur á þeim.

Eftirtaldir aðilar fengu verðlaun að þessu sinni.

Sóknarnefnd Kálfatjarnarsóknar fyrir viðhald á Kálfatjarnarkirkju
Kálfatjarnarkirkja er elsta húsið í sveitarfélaginu sem enn er í fullri notkun, byggð 1893.  Viðhald á kirkjunni og umhverfi hennar er til fyrirmyndar og frágangur allur eins og best verður á kosið.

Guðbjörg Theodórsdóttir og Hrafn Sigurhansson fyrir garðinn að Heiðargerði 28
Garðurinn er mjög smekklegur með frumlega klipptum runnum og uppröðun plantna.  Í honum er fjölbreyttur gróður jafnt tré og runnar sem blómplöntur.  Garðurinn er einstaklega vel hirtur og ber þess merki að lögð er alúð í vinnu og viðhald hans.

Ragnar Karl Þorgrímsson og Særún Jónsdóttir fyrir garð og hús að Vogagerði 33
Garður þeirra er hefðbundinn með miklum og fjölbreyttum gróðri. Þau hlutu  viðurkenningu fyrir garðinn árið 1991 og hefur honum og húsinu verið vel við haldið allar götur síðan. Særún er auk þess vakandi fyrir umhverfi sínu og til fyrirmyndar fyrir framlag sitt til uppgræðslu og umhverfismála í sveitarfélaginu.

Bogi Sigurðsson og Sigríður Garðarsdóttir fyrir hús og garð að Hólagötu 2b
Húsið er nýlegt með fullfrágenginni lóð.  Heildarsvipur húss og lóðar er góður.  Gróður er stutt á veg kominn en lofar góðu við frekar erfið skilyrði auk þess að skemmtilega útfærður lækur sem rennur framan við húsið setur fallegan svip á umhverfið.