Fréttatilkynning
Endurvinnsluvika haldin í fyrsta sinn á Íslandi.
Reykjavík, 15. september 2008
Samkvæmt nýrri könnun sem Capacent gerði fyrir Úrvinnslusjóð flokka tæplega 91% Íslendinga sorp til endurvinnslu. Nær 19% segjast gera það alltaf og um 37% oft. Um 35% segjast flokka sorp stundum eða sjaldan. Hlutfall þeirra sem flokka sorp til endurvinnslu hefur hækkað frá síðustu mælingu árið 2006, þegar um 84% sögðust flokka sorp.
Vikuna 12.-19. september verður haldin endurvinnsluvika þar sem kynnt verður mikilvægi endurvinnslu fyrir íslenskt samfélag. Sérstök áhersla verður lögð á kynningu fyrir unglinga þar sem kannanir benda til að fólk á aldrinum 16-20 ára standi sig einna verst í flokkun sorps. Til dæmis segjast ríflega 15% unglinga á aldrinum 16-20 ára aldrei flokka sorp en sambærileg tala fyrir alla aldurshópa yfir 16 ára aldri er 9,2%.
Á meðan á endurvinnsluvikunni stendur verður lögð sérstök áhersla á að kynna úrræði til endurvinnslu í framhaldsskólum landsins. Sérstakt kennsluefni fyrir framhaldsskóla hefur verið unnið í tilefni endurvinnsluvikunnar. Vefsíða Úrvinnslusjóðs hefur verið endurbætt með það að markmiði að upplýsa betur um þau úrræði sem standa til boða í hverjum landshluta fyrir sig. Nokkur fyrirtæki í endurvinnslugeiranum hafa opið hús fyrir framhaldsskóla á síðasta degi vikunnar, föstudaginn 19. september.
Þetta er í fyrsta sinn sem endurvinnsluvika er haldin hér á landi en hún er haldin að evrópskri fyrirmynd. Það er Úrvinnslusjóður sem stendur að átakinu í samvinnu við umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Gámaþjónustuna, SORPU, Íslenska gámafélagið og Endurvinnsluna. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra setti endurvinnsluvikuna í Menntaskólanum við Hamrahlíð föstudaginn 12. september.
Full ástæða er til að fræða almenning betur um þau úrræði sem standa til boða. Þótt kannanir sýni að almenningur á Íslandi sé almennt mjög jákvæður í garð endurvinnslu og langflestir flokki sorp að einhverju leyti má alltaf gera betur.
Nánari upplýsingar veita:
Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs,
í síma 517 4700 eða farsíma 660 4707
Guðlaugur Sverrisson, verkefnastjóri hjá Úrvinnslusjóði,
í síma 517 4700 eða farsíma 660 4702