Sveitarfélagið Vogar hefur ákveðið að sameina matreiðslu heitra máltíða fyrir grunn- og leikskóla í Tjarnarsal sem staðsettur er við Stóru-Vogaskóla. Ennfremur var ákveðið að bjóða út reksturinn. Sveitarfélagið Vogar býður sem kunnugt er grunnskólanemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í hádeginu.
Markmið breytinganna er að ná fram stærðarhagkvæmni í reksti eldhúsanna og auka tekjur sveitarfélagsins af Tjarnarsal.
Í útboðslýsingu var lögð áhersla á að maturinn verði eldaður á staðnum og að þeim viðmiðum sem sett eru í Handbók Lýðheilsustöðvar um skólamötuneyti fyrir skóla og leikskóla, og viðmiðum um Heilsuleikskóla verði fylgt.
Tvö tilboð bárust í verkið, frá Flugþjónustunni IGS og Söluvitanum ehf. Tilboð Flugþjónustunnar var 96.668.341 kr. á fjögurra ára samningstíma, en tilboð Söluvitans ehf. var 79.409.380 kr. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 83.157.000 kr. Tilboð Söluvitans var þannig tæpum 4 milljónum króna undir kostnaðaráætlun.
Nú fer fram mat á tilboðunum og verður ákvörðun tekin á næstu misserum. Við mat á tilboðum verður litið til reynslu verktaka (20%), verðs (50%) og samsetningu matseðils og hráefnisnotkun (30%).