Fimmtudaginn 1. nóvember klukkan 20:00 verða haldnir tónleikar í Hlöðunni í Vogum á Vatnsleysuströnd. Þar Charity Chan spunapíanóleikari frá Kanada leika ásamt hljómsveitinni Ferstein sem leikur verk eftir Guðmund Stein Gunnarsson. Allir flytjendur munu einnig taka þátt í spuna á tónleikunum. Ókeypis er á tónleikana og allir eru velkomnir.
sjá Menningarverkefnið Hlaðan
http://www.facebook.com/listahladan?fref=ts
Charity Chan er píanó og harmóníkkuleikari sem sérhæfir sig í frjálsum spuna. Eftir að hafa lært klassískan píanóleik frá unga aldri fór hún að hafa áhuga á að leika eins mikið innan í píanóinu eins og með lyklunum. Hún hefur leikið með mörugm af helstu spunatónlistarmönnum heims s.s. Jean Derome, Lori Freedman, Frank Gratowski, Fred Frith og Joelle Leandre. Eftir að hafa lært tónlist í Háskólunum McGill, Mills College og Princeton starfar hún sem píanóleikari í Montreal. Hún ferðast reglulega og er að koma af tónleikaferð frá m.a. Þýskalandi og Grikklandi áður en hún kemur við á Íslandi.
Fersteinn er hljómsveit skipuð Báru Sigurjónsdóttur, Lárusi Halldór Grímssyni, Páli Ivan Pálssyni og Guðmundi Steini Gunnarssyni. Hljómsveitin leikur tónverk eftir þann síðastnefnda. Hljómsveitin leikur tilraunatónlist í stuttum þáttum þar sem ýmis hljóðfæri koma við sögu svo sem Ukulele, gæsaflautur, blokkflautur, saxófónn og slagverk. Allir flytjendur leika á mörg hljóðfæri. Hljómsveitin hefur lagt áherslu á að koma fram í mismunandi samhengi þó svo það henti hljómsveitinni best að koma fram í litlum rýmum svo sem heimahúsum. Hljómsveitin fór nýlega í tónleikaferð um Holland og aðra um höfuðborgarsvæðið með áherslu á almenningsbókasöfn. Hljómsveitin hefur komið fram á hátíðunum Sequences, Ljósahátíð í Keflavík, Ljóðahátíð Nýhil og Sláturtíð.
Charity Chan
Ferstein