Tilkynning frá UMFÞ vegna umsóknar um Unglingalandsmót 2012

Ungmennafélagið Þróttur hefur um nokkurt skeið stefnt að því að fá að halda unglingalandsmót UMFÍ í Sveitarfélaginu Vogum árið 2012. Hugmynd sú varð að engu er formaður UMFÍ tilkynnti Þrótti eftir fund með fjárlaganefnd ríkisins að ríkið komi ekki til með að styrkja sveitarfélög til framkvæmda við uppbyggingu íþróttamannvirkja á þessu ári. Ákvörðun stjórnar Þróttar er því sú að draga umsókn um mótshald til baka og gera ekki kröfu á sveitarfélagið um að auka fjármagn til framkvæmda við íþróttasvæði umfram það sem nú þegar hefur verið ákveðið. Ungmennafélagið Þróttur vill samt koma á framfæri þakklæti til þeirra er veittu málefninu stuðning og lögðu hönd á plóg við þá miklu vinnu sem nú þegar hefur verið unnin. Einnig viljum við þakka Norðuráli fyrir þá stuðningsyfirlýsingu að vera aðalstyrktaraðili mótsins ef af því hefði orðið.

Virðingarfyllst,

Formaður UMF Þróttar
Ríkharður S. Bragason