Þróttur leikur við Þrótt

Á mánudagskvöldið var dregið í 32ja liða úrslit bikarkeppni karla í handbolta. Leikirnir í bikarnum  fara fram sunnudaginn 7.október og mánudaginn 8.október. Í fyrstu umferð sitja Valur og Stjarnan hjá.

Ungmennafélagið Þróttur í Vogum dróst gegn Þrótti í Reykjavík. Þróttur í Reykjavík er nýbyrjað aftur með handknattleiksdeild eftir marga ára dvala og spilar í 1. deild undir stjórn Konráðs Olavssonar, fyrrum landsliðskappa.

Þróttur Vogum hefur undanfarin þrjú ár tekið þátt í bikarkeppni HSÍ og hefur lengst náð í 16 liða úrslit . Fyrsta árið komst liðið í 16 liða úrslit eftir frækilegan sigur á ÍBV 2.  Í næstu umferð, undir stjórn Sigurðar Sveinssonar, mætti Þróttur Vogum 1. deildarliði ÍR og féll út úr keppninni með sæmd. ÍR liðið fór alla leið og urðu bikarmeistarar þetta árið. 

Árið 2006 keppti Þróttur V. við lið Stjörnunnar 2 og tapaðist sá leikur naumlega.  Á síðasta ári var stefnan sett hærra og urðu andstæðingar Þróttar Vogum  að þessu sinni í 32ja liða úrslitum,  Leiknir úr Breiðholti. Leikurinn við Leikni vannst örugglega og  sæti í 16. Liða úrslitum tryggt. Þar dróst liðið á móti Stjörnunni, skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir topp mætingu  stuðningsmanna úr Vogunum, sem létu vel í sér heyra á pöllunum, þá sigraði Stjarnan . Sem varð svo bikarmeistari 2007.

Með Þrótti Vogum hafa spilað ýmsir þjóðþekktir einstaklingar s.s. Egil „Gillzenegger“ Einarsson, Örn „ sundkappi“ Arnarsson og Gunnar ,,göngugarpur" Helgason.

Hverjir verða með núna?
Leiktíminn og leikstaður verður auglýstur fljótlega.

Áfram Þróttur!