Þrátt fyrir að hafa tapað síðasta leik sínum gegn Áfltanesi á Umf. Þróttur enn góða möguleika á því að komast í úrslitakeppni 3. deildar. Þróttarar máttu sætta sig við 0-2 tap á Álftanesi þriðjudaginn 28. júlí, í leik þar sem Vogaliðið var síst lakari aðilinn en náði ekki að nýta ótal færi sem gáfust í leiknum.
Þegar fjórar umferðir eru eftir situr Þróttur í þriðja sæti B-riðils 3. deildar með 16 stig, Álftanes er í öðru sæti með 19 stig en KFS er með örugga forystu í fyrsta sæti með 28 stig. Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram í úrslitakeppni 3. deildar.
Næsti leikur Þróttar er á Nesbyggðarvellinum í Vogum föstudaginn 7. ágúst kl. 18:00 þegar topplið KFS kemur í heimsókn. Sá leikur er föstudaginn fyrir Fjölskyldudaginn og eru Vogabúar hvattir til að hefja hátíðina snemma og mæta í appelsínugulu á völlinn til að hvetja sína menn til sigurs.