Núna um helgina fór fram Landsmót UMFÍ 50+. Þróttarar áttu að sjálfssögðu sína fulltrúa á mótinu. Tók félagið þátt í boccia og liðið var þannig skipað: Örn Pálsson, Birna Jónsdóttir, Jórunn G Stefánsdóttir og Ragnar J Henriksson. Um 400 keppendur voru skráðir til leiks.
Félagsheimilið á Blönduósi var fullt út að dyrum þegar 5. Landsmót UMFÍ var sett. Yfir 400 manns voru á setningunni og mikil og góð stemning. Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, setti mótið og meðal annarra sem fluttu ávörp voru Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Einar Kristján Jónsson, formaður landsmótsnefndar, og Haukur Ingibergsson formaður Landssambands eldri borgara.
Boccia sveitin okkar stóð sig vel. Vann tvo leiki og tapaði þremur. Varð í þriðja sæti í sínum riðli af fimm liðum. Fóru því ekki áfram í úrslitin sem voru spiluð daginn eftir. Félagið þakkar þeim fjórum kærlega fyrir þátttökuna og óskum þeim til hamingju með árangurinn.
Þróttarar ætla setja markið hátt þegar landsmót 50+ fer næst fram og stefnt er að fjölga í hópnum og taka þátt í fleiri greinum.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp við setningu 5. Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi og sagði m.a. óumdeilt að þessi mót hefðu heilmikið gildi.
,,Það er engin ástæða til að hætta að hreyfa sig eða taka þátt í íþróttum eftir að maður er kominn yfir fimmtugt. Heilsa er almennt betri og fólk er í góðu ásigkomulagi einmitt vegna þess kannski að við stundum íþróttir og hreyfum okkur meira en áður og gerum síðan áfram fram eftir aldri. Þetta snýst ekki eingöngu um keppni í íþróttum heldur líka að njóta félagsskaparins. Hitta fólk hvaðanæva af landinu, efla gömul vináttutengsl sem byggð eru á í gegnum íþróttirnar. Allt er þetta mjög mikilvægt og hluti að því að eiga gott líf,“ sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
Myndirnar eru frá Ragnari og þökkum við honum kærlega fyrir að fá að nota þær.
Lið Þróttar: Birna Jónsdóttir, Örn Pálsson, Jórunn G. Stefánsdóttir og Ragnar J. Henriksson