Þróttur Vogum heimsótti Kóngana á laugardaginn, Kóngarnir er nýtt lið og eru að taka þátt í fyrsta skipti í deildarkeppni, en þeir hafa verið í utandeildinni síðustu árin og einnig tekið þátt í bikarnum. Var þetta leikur í annari umferð 4. deildar.
Leikurinn fór vel á stað fyrir Vogamenn því Þróttarar skoruðu eftir 8. mínútur, þar var að verki Hinrik Hinriksson með glæsilegum skalla eftir hornspyrnu frá Einari Helga Helgasyni. Það var síðan gegn gangi leiksins sem Kóngarnir jöfnuðu á 34. mínútu 1-1. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks komust Vogamenn aftur yfir og þar var að verki Páll Guðmundsson sem skoraði markið með hnitmiðuðu skoti úr miðjum vítateignum eftir að leikmönnum Kónganna mistókst að hreinsa frá. 1-2 í hálfleik. Vogamenn í vil.
Seinni hálfleikur fór vel á stað og byrjuðu Vogamenn með miklum látum, uppskáru mark í sinni fyrstu sókn og auðvitað gat Reynir Þór Valsson fyrirliði Þróttara ekki sleppt því að vera á markalistanum. 1-3 , þá var eins og Vogamenn héldu að þetta væri komið því Kóngarnir tóku öll völd á vellinum og byrjuðu að pressa og náðu að setja mark á okkur þegar 25. mínútur voru eftir af leiknum. 2-3 staðan. Það var síðan á 80. mínútu sem Þróttarar gerðu útum leikinn, með sitt annað mark norðanmaðurinn Hinrik Hinriksson með skalla. Lokatölurnar í þessum leik því 2-4 og Þróttarar með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar.
Næsti leikur Þróttara verður á móti Magna Grenivík miðvikudaginn 29. maí í 32-liða úrslitum bikarsins. Fer leikurinn fram í Boganum.