Þróttarar leggja línurnar ...

Fótboltaþing um framtíðarsýn fótboltans í Vogum var haldið í Íþróttamiðstöðinni fyrir nokkru síðan. Yfirskrift þingsins var: Hvar viljum við standa í fótboltanum í Vogum árið 2020? Um 20 manns mættu á þingið sem fór vel fram undir stjórn Gunnar Helgasonar. Umræður voru afar fróðlegar og gagnlegar en fundargestum var skipt upp í fjóra hópa með fimm mismunandi málefnum þar sem fyrirliðar stjórnuðu umræðum á hverju borði fyrir sig. Allir fundargestir fóru svo skipulega á milli borðanna.

Umræðuefnin voru meistaraflokkur karla, yngri flokkarnir, framtíðar aðstaða og leiðarljós/stuðningsfólk. Í samantekt fyrirliðanna kom margt forvitnilegt fram, m.a. að hlúa vel að knattspyrnufólki í Vogunum, að vanda valið á aðkomuleikmönnum sem fengnir eru til Voganna og hugsa þar frekar um gæði en magn, að fá meira Vogahjarta og metnað í leikmenn og fá þá til þess að bera meiri virðingu fyrir félaginu. Jafnframt að stelpurnar sitji við sama borð og strákar hvað varðar aðstæður og þjálfun,  Skýrt kom fram að árið 2020 á Þróttur enn að vera metnaðarfullt félag á öllum vígstöðum þrátt fyrir að koma frá litlu bæjarfélagi, með úrvals aðstöðu og öflugt innra starf, svo eitthvað sé nefnt af öllum þeim hugmyndum sem fram kom á þinginu. Einnig kom fram á þinginu mikil ánægja fundargesta með sl. sumar og hlúa vel að fánadegi félagsins sem var haldin í fyrsta skipti í sumar. 

Fram kom í lok þingsins að nú verður unnið úr þessum gögnum og þau lögð til grundvallar við mótun framtíðarstefnu knattspyrnustarfs hjá Þrótti sem lögð verður fyrir aðalfund deildarinnar í febrúar nk. og á að móta starfið til ársins 2020. 

 Einn þingmanna hafði þetta að segja þegar þingi lauk:  Miklu skemmtilegra að vera á þingi en ég hafði ímyndað mér..... frábærar umræður og góður hópur með jákvæðni í fyrirrúmi. Hlakka til að sjá útkomuna og eins að mæta á næsta þing.