Þorsteinn Gunnarsson nýr þjálfari Þróttar Vogum

Þorsteinn Gunnarsson hefur verið ráðinn þjálfari Þróttar Vogum. Þorsteinn er 46 ára Vestmannaeyingur, búsettur í Grindavík. Hann lék á sínum tíma með ÍBV og hefur víðtæka reynslu innan knattspyrnuhreyfingarinnar á ýmsum vígstöðvum. Í sumar var Þorsteinn aðstoðarþjálfari HK en áður var hann formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur í þrjú ár og samhliða því markmannsþjálfari hjá félaginu. Þorsteinn þjálfaði um árabil í Vestmannaeyjum og gerði 2. flokk kvenna að Íslandsmeisturum auk þess að þjálfa meistaraflokk kvenna og 2. og 3. flokk karla. Þá var hann framkvæmdastjóri félagsins um tíma. Þorstienn var íþróttafréttamaður hjá Stöð 2 í tæpan áratug. Þorsteinn hefur lokið UEFA B – þjálfaraprófi.

„Við hjá Þrótti Vogum erum hæst ánægð að fá Þorstein til starfa enda er hann búinn að vera tengdur knattspyrnunni síðustu árin frá öllum vígstöðum og unnið með mörgum reynslumiklum þjálfurum. Þróttur Vogum spilar í 4. deildinni í sumar og það er skemmtilegt tímabil framundan,“ segir Marteinn Ægisson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar Vogum.

„Þetta er spennandi verkefni, metnaðarfull stjórn og aðstaðan virkilega góð. Framundan er áframhaldandi uppbyggingarstarf og það verður gaman að leggja sitt af mörkum,“ segir Þorsteinn Gunnarsson.

Marteinn Ægisson og Þorsteinn Gunnarsson