Þann 17. apríl 2018 var ný súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðja ÍSAGA tekin í notkun í Vogum.

Þriðjudaginn 17. apríl 2018 var ný súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðja ÍSAGA tekin í notkun í Vogum. Verksmiðjan framleiðir súrefni og köfnunarefni úr andrúmsloftinu, sem mun bæði nýtast iðnaði og framleiðslustarfsemi ýmiss konar, auk þess sem heilbrigðisþjónustunni í landinu verður áfram séð fyrir hágæðasúrefni á öruggan hátt.

Bygging verksmiðjunnar er fyrsta skrefið í að flytja alla starfsemi ÍSAGA í Voga þegar fram líða stundir. Fyrirtækið stendur á gömlum og traustum merg, en það hóf starfsemi sína á Íslandi árið 1919 í samstarfi við sænska fyrirtækið AGA. Linde Group eignaðist AGA samsteypuna árið 1999, en samsteypan er stærsta gasfyrirtæki heims í dag með starfsemi í yfir 100 löndum. Verksmiðjan leysir af hólmi 40 ára gamla verksmiðju við Breiðhöfða í Reykjavík. Þrátt fyrir að afkastageta verksmiðjunnar sé um 30% meiri en gömlu verksmiðjunnar er orkunotkunin eigi að síður umtalsvert minni. Verksmiðjan er alsjálfvirk, og er fjarstýrt af starfsólki ÍSAGA sem fylgist með rekstrinum allan sólarhringinn. Enginn mengadi úrgangur eða aukaefni fylgja framleiðslunni og eina útblásturinn er lyktarlaus vatnsgufa.

Ráðherra iðnaðar- og nýsköpunar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir tók verksmiðjuna formlega í notkun við hátíðlega athöfn, að viðstöddum bæjaryfirvöldum í Vogum, þingmönnum Suðurkjördæmis og fjölmörgum öðrum gestum.

ÍSAGA áformar að bjóða íbúum sveitarfélagsins og öðrum áhugasömum að skoða verksmiðjuna, og verður af því tilefni efnt til opins húss laugardaginn 26. maí n.k.

Sveitarfélagið Vogar óskar ÍSAGA, forsvarsmönnum og starfsfólki fyrirtækisins til hamingju með áfangann, og býður fyrirtækið velkomið í Voga.

Ljósmynd: Víkurfréttir / Hilmar Bragi