Þakklæti frá knattspyrnudeild Þróttar Vogum

Knattspyrnudeild Þróttar langar að ítreka þakklæti sitt til allra stuðningsmanna félagsins, það eru ekki mörg félag sem spila í 4. deildinni sem geta státað sig af því að fá á annað hundrað manns á heimaleiki og stuðningsmenn liðsins klæðast keppnistreyjum félagsins á leikjum. Þetta er einsdæmi.
Við sendum styrktaraðilum og öðrum samstarfsaðilum þakkir fyrir sumarið, án þeirra þá væri ekki hægt að reka þessa deild með þessum myndarbrag sem hefur verið gert síðustu árin.
Einnig viljum við nota tækifærið og þakka Svövu og Tinnu hjá aðalstjórn félagsins og foreldrafélagi félagsins fyrir frábært samstarf og metnaðarfullt starf.
Markmiðið í sumar var að komast í úrslitakeppnina í fyrsta skipti í sögu félagsins. Það voru því eðlilega mikil vonbrigði þegar við vorum aðeins einu stigi  frá markmiðinu. Þrátt fyrir það var þetta besti árangur félagsins til þessa og einnig fórum við langt í bikarkeppni KSÍ.
Leikmenn félagsins hafa staðið sig frábærlega vel í sumar og þeirra framlag til þess að lyfta Þrótti á hærri stall er ómetanlegt, það er ótrúlega gaman að finna hvað þessi árangur í sumar hefur gefið félaginu og samfélaginu í Vogum mikið, við hjá félaginu finnum fyrir miklu þakklæti.
Uppbyggingin heldur áfram sumarið 2014. Þróttarar setja markið hátt næsta sumar og ætlum að koma félaginu upp um deild og vera stolt Sveitarfélagsins Voga.
Laugardaginn 21. September verður lokahófið og ætlum við að hlaða batteríin þangað til og þetta kvöld gerum við okkur glaðan dag með stuðningsmönnum og leikmönnum félagsins. Hvetjum við alla til að mæta og loka sumrinu með okkur.

Innilegar þakkir til ykkar allra !!!

Kveðja Marteinn, Gunnar og Friðrik.

 

Lið Þróttara sumarið 2013