Það er mikið um að vera á aðventunni

Að morgni föstudagsins 25. nóvember var kveikt á jólatrénu í Aragerði. Þegar búið var að tendra ljósin á trénu, dönsuðu nemendur á yngsta stigi Stóru-Vogaskóla í kringum tréð.
Börn á elsta stigi Heilsuleikskólans Suðurvalla skreyttu svo tréð. Jólasveinar heyrðu í börnunum syngja ofan úr Keili og komu þeir hlaupandi niður í Aragerði og skemmtu sér konunglega með börnunum á þessari hátíðlegu stund. Sveinarnir gáfu svo krökkunum mandarínur þegar þeir fóru, við mikla ánægju barnanna

Sunnudaginn 27. nóvember var nóg um að vera í Vogunum. Minjafélagið var með opið í skólahúsinu Norðurkoti sem búið var að klæða í jólabúning. Minjafélagið var einnig með glæsilegan jólamarkað í Skjaldbreið sem er hlaða frá 1850 og þar ríkti hinn sanni jólaandi.

Kvenfélagið Fjóla var með sinn margrómaða kökubasar þar sem borðin svignuðu undan tertum og öðru heimagerðu góðgæti.

Svo var toppurinn á skemmtilegum degi þegar kveikt var á jólatré bæjarins.

Kór Kálfatjarnarkirkju söng fyrir gesti tvö sígild jólalög þar sem gestum gafst færi á að taka þátt í söngnum. Arnór Bjarki Blomsterberg sóknarprestur fór með stutta en innihaldsmikla hugvekju.

Eftir hugvekju Arnórs voru svo ljós trésins tendruð. Birtan var svo mikil að hún dróg að tvo rauðklædda bræður, þá Stúf og Giljagaur. Þeir héldu upp stuðinu það sem eftir lifði viðburðarins með söng, dansi, gríni og glensi.

 

Þess má geta að jólatréð að þessu sinni er úr Vogunum og kemur úr garðinum hjá hjónunum Anitu Ósk Drzymkowsku og Bjarka Þór Kristinssyni, Fagradal 11.