Sveitarfélagið Vogar fær úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra

 

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir árið 2007 til uppbyggingar verkefna í öldrunarþjónustu. Til ráðstöfunar úr sjóðnum voru samtals 711,8 milljónir króna og fékk Sveitarfélagið Vogar 31,2 milljónir króna til byggingar þjónustumiðstöðvar fyrir aldraða, en heildarkostnaður við byggingu þjónustumiðstöðvarinnar er áætlaður um 156 milljónir.

 

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra skal Framkvæmdasjóður aldraðra stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. Fjármagni skal varið til byggingar þjónustumiðstöðva og dagvista og byggingar stofnana fyrir aldraða. Einnig er hlutverk sjóðsins að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða og til viðhalds húsnæðis dagvistar- dvalar- og hjúkrunarheimila. Loks er heimilt að veita styrki úr sjóðnum til annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem lagt er á skattskylda einstaklinga samkvæmt lögum um tekjuskatt.

 

Sveitarfélagið Vogar sótti um styrk til að standa straum af kostnaði við byggingu þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara við Akurgerði. Fyrirhugað er að opna þjónustumiðstöðina í haust í tengslum við íbúðir Búmanna við Akurgerði og Vogagerði. Byggingin mun gjörbylta aðstöðu fyrir tómstundaiðju eldri borgara í Sveitarfélaginu Vogum og verða miðdepill svokallaðs Stórheimilis í Vogum, þar sem þjónustumiðstöðin mun tengjast íbúðum fyrir eldri borgara.

 

Nánari upplýsingar um íbúðirnar má fá hjá Búmönnum hsf. www.bumenn.is