Sveitarfélagið Vogar fær styrk úr Þjóðhátíðarsjóði

Sveitarfélaginu var í gær úthlutað 200.000 kr. styrk úr Þjóðhátíðarsjóði við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Styrkurinn er veittur til að sinna vettvangsskráningu minja í sveitarfélaginu sem eru í hættu vegna sjávarrofs.  
Í Vatnsleysustrandarhreppi var um aldir þétt byggð útvegsbúskapar meðfram ströndinni. Saga þessa samfélags er enn sem komið aðallega varðveitt í fornminjum sem hafa ekki hafa verið mikið rannsakaðar og eru margar í bráðri hættu vegna ágangs sjávar.
Árið 2005 kom út skýrslan Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Sædísi Gunnarsdóttur. Skýrslan er þáttur í undirbúningi nýs aðalskipulags fyrir Sveitarfélagið Voga sem nú er unnið að. Þar er getið u.þ.b. 1300 fornminja á 39 bújörðum. Skýrsla þessi er unnin upp úr rituðum heimildum. Má þar nefna örnefnaskrár, jarðabækur, jarðabréf, túnakort og bækur eftir Árna Óla, Guðmund Björgvin Jónsson og Sesselju Guðmundsdóttur.  Skýrslan er grunnur næsta skrefs í skráningu og rannsóknum fornminja okkar sveitar, en það eru vettvangsskráning minjanna.

Í vor var unnið að mótun stefnu sveitarfélaganna á Suðurnesjum í menningarmálum. Fyrir hönd Sveitarfélagsins Voga unnu Sigurður Rúnar Símonarson, kennari, Inga Rut Hlöðversdóttir, bæjarfulltrúi og Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri, að stefnumótuninni. Niðurstaða þeirrar stefnumótunarvinnu er að sérstaða Voganna og Vatnsleysustrandar sé ekki síst sú hve mikið af minjum um horfna starfshætti er að finna í sveitarfélaginu. Í því felist mörg tækifæri í menningartengdri ferðaþjónustu. Skráning fornminja næst sjó er liður í því að nýta þau tækifæri.