Sveitarfélagið auglýsir nú laust til umsóknar ný störf menningarfulltrúa og íþrótta- og tómstundafulltrúa.

Viltu vaxa með okkur?

Sveitarfélagið Vogar er staðsett á Suðurnesjum, í u.þ.b. 20 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Stutt er í Reykjanesbæ og á Keflavíkurflugvöll. Íbúar sveitarfélagsins eru nú um 1.300 talsins, og hefur fjölgað talsvert að undanförnu. Búist er við áframhaldandi vexti og mikilli uppbyggingu í sveitarfélaginu næstu árin, með tilheyrandi fjölgun íbúa. Nemendur í grunnskólanum eru um 175 talsins, og rúmlega 60 börn eru í leikskólanum. Áhersla er lögð á fjölbreytt og metnaðarfullt félagsstarf eldri borgara í samstarfi við félag eldri borgara í Vogum. Sveitarfélagið starfrækir einnig félagsmiðstöð unglinga, þar sem börn og ungmenni finna ýmsa afþreyingu og tómstundastarf við sitt hæfi. Ungmennafélagið Þróttur rækir öflugt íþrótta- og ungmennastarf í sveitarfélaginu. Fjölmörg frjáls félagasamtök starfa í sveitarfélaginu, m.a. á vettvangi líknarmála, menningarmála og tómstunda. Sveitarfélagið skerpir nú áherslur í starfseminni, og leitar að traustum og öflugum liðsauka til að takast á við þau fjölmörgu og krefjandi verkefni sem framundan eru.

Sveitarfélagið  auglýsir nú laust til umsóknar ný störf menningarfulltrúa og íþrótta- og tómstundafullt.

Menningarfulltrúi
Verksvið:
Menningarfulltrúi hefur yfirumsjón með menningartengdri starfsemi á vegum sveitarfélagsins. Hann undirbýr, skipuleggur og sér um framkvæmd árlegra fjölskyldudaga, í nánu samstarfi við starfandi félagasamtök í sveitarfélaginu. Menningarfulltrúi veitir jafnframt félagsstarfi eldri borgara forstöðu, og er næsti yfirmaður starfsfólks félagsstarfsins. Hann ber ábyrgð á að starfsemi sem undir hann heyrir sé í samræmi við fjárhagsheimildir og innan samþykktrar fjárhagsáætlunar. Menningarfulltrúi annast samskipti við félagasamtök á vettvangi menningarmála og er tengiliður við félögin á grundvelli samstarfssamninga við þau. Menningarfulltrúi er starfsmaður Frístunda- og menningarnefndar og kemur að undirbúningi mála í samstarfi við formann nefndarinnar ásamt íþrótta- og tómstundafulltrúa sveitarfélagsins. Menningarfulltrúi hefur starfsaðstöðu á bæjarskrifstofu, auk þess sem hann hefur aðstöðu í Álfagerði þar sem félagsstarf eldri borgara hefur aðstöðu sína. Næsti yfirmaður er bæjarstjóri.

Hæfniskröfur:
• Gerð er krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Menntun á sviði menningarstjórnunar er kostur.
• Frumkvæði, metnaður og sjálfstæði í vinnubrögðum
• Áhersla á færni og lipurð í samskiptum.
• Góð almennt tölvukunnátta og tölvufærni.

Íþrótta- og tómstundafulltrúi
Verksvið:
Íþrótta- og tómstundafulltrúi veitir félagsmiðstöð unglinga forstöðu. Hann er næsti yfirmaður starfsfólks félagsmiðstöðvarinnar og ber ábyrgð á rekstur hennar sé í samræmi við fjárhagsheimildar og innan samþykktrar fjárhagsáætlunar. Íþrótta- og tómstundafulltrúi starfar jafnframt náið með stjórnendum grunnskólans, um málefni ungmenna. Íþrótta- og tómstundafulltrúi annast samskipti við íþrótta- og æskulýðsfélög innan sveitarfélagsins og er tengiliður við félögin á grundvelli samstarfssamninga við þau. Íþrótta- og tómstundafulltrúi situr fundi Frístunda- og menningarnefndar og kemur að undirbúningi mála í samstarfi við formann nefndarinnar og menningarfulltrúa sveitarfélagsins (starfsmanns nefndarinnar). Íþrótta- og tómstundafulltrúi hefur starfsaðstöðu bæði í félagsmiðstöð unglinga og í grunnskólanum. Næsti yfirmaður er bæjarstjóri.

Hæfniskröfur:
• Gerð er krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Menntun á sviði tómstunda- og félagsmálafræða er kostur.
• Frumkvæði, metnaður og sjálfstæði í vinnubrögðum
• Áhersla á færni og lipurð í samskiptum, ekki síst við börn og unglinga
• Góð almennt tölvukunnátta og tölvufærni.

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Suðurnesja. Um fullt starf er að ræða í báðum tilvikum. Hreint sakavottorð er skilyrði fyrir ráðningu.
Æskilegt er að umsækjendur geti hafið störf sem fyrst. Nánari upplýsingar um starfið veitir Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri, netfang asgeir@vogar.is Umsóknarfrestur er til 1. desember 2018. Umsóknum skal skilað á netfangið skrifstofa@vogar.is. Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál og þeim svarað þegar gengið hefur verið frá ráðningu.