Sveitamarkaður Hlöðunnar

Fyrsti sveitamarkaður Hlöðunnar, sem fór fram laugardaginn 11. september síðastliðinn, heppnaðist afar vel.
Fjöldi fólks heimsótti markaðinn og gerði góð kaup enda úrvalið mikið.
Veðrið lék við gesti og gerðu Suðurnesjamenn jafnt sem nágrannar af höfuðborgarsvæðinu sér glaðan dag í Vogunum.
Vinningshafi í keppninni um bragðbestu sultuna var Kolbrún Dagbjört Sigurðardóttir en hún bauð upp á rifsberjasultu með vanillu. Júlía Gunnarsdóttir heillaði einnig dómnefndina með rabarbarasultunni sinni.
Jón Gestur Ben Birgisson hreppti verðlaunin fyrir skrýtnustu kartöfluna en hann var yngsti sölumaðurinn á markaðnum aðeins níu ára gamall.
 
Hlaðan ásamt aðstandendum markaðarins þakkar öllum þeim sem tóku þátt en ákveðið hefur verið að bjóða upp á annan markað á aðventunni þar sem boðið verður upp á ýmislegt jólalegt bæði mat og handverk.