Sveitaferð leikskólans að Grjóteyri

Foreldrafélag Heilsuleikskólans Suðurvalla efndi til sveitaferðar að Grjóteyri í Kjós þann 5. júní síðastliðinn.
Þrátt fyrir þungbúin ský og rigningu, lögðu ferðalangar; nemendur, foreldrar, systkini og kennarar upp í ferðina með tilhlökkun og spenningi. Ferðin var mjög skemmtileg og börnin voru alveg heilluð af dýrunum.  Þarna mátti sjá margs konar húsdýr og flest þeirra með ungviði sitt. 

Þá voru þarna líka gamlar dráttarvélar sem einnig höfðu mjög mikið aðdráttarafl.  Stundum mynduðust biðraðir til að fá að setjast í bílstjórasætið og snúa stýrinu. Hundarnir á bænum voru alveg til í tuskið og börnin hlupu og ærsluðust með þeim tímunum saman. Það voru grillaðar pylsur í hádeginu, svo var boðið upp á mjólk, kaffi, kleinur og flatkökur áður en lagt var af stað heim aftur. 

Foreldrafélagið á góðar þakkir skilið fyrir framlag sitt til þessarar eftirminnilegu upplifunar.