Miðvikudaginn 6. júní fóru eldri borgarar í Vogum í ævintýralega ferð á Snæfellsnes. Um 30 manns voru í ferðinni en lagt var upp frá Álfagerði kl. 9:00. Leiðin lá á Arnarstapa þar sem allir fengu sér að borða og síðan var litast um þar og m.a. gengið niður að sjó. Að því loknu var farið fyrir nesið og næst áð á Djúpalónssandi. Þá var haldið áfram og kíkt í heimsókn til Hildibrands í Bjarnarhöfn. Þar var skoðuð kirkja og merkilegt safn sem þar er undir leiðsögn Hildibrands. Því næst var haldið til Stykkishólms og farið í veislusiglingu um Breiðafjörðinn með Sæferðum. Þar voru skoðaðar ýmsar eyjar og náttúruundur í Breiðafirði ásamt því að fólk fékk að gæða sér á ferskum skelfisk. Svo var slegið upp heljarveislu í bátnum þar sem veisluborðið svignaði undan kræsingum. Þegar komið var í land í Stykkishólmi var haldið heim á leið. Það voru þreyttir en umfram allt sælir ferðalangar sem komu heim úr þessari ógleymanlegu ævintýraferð og voru menn strax farnir að skipuleggja næstu ferð. Fararstjóri í ferðinni var Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri og fór hann á kostum í hlutverki fararstjóra, enda vanur maður þar á ferð.
Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í ferðinni en ljósmyndarar voru Jón Mar Guðmundsson og Stefán Arinbjarnarson, einnig má sjá fleiri myndir hér í myndasafninu.