Suðurvalladagurinn

Hinn árlegi hátíðisdagur Heilsuleikskólans Suðurvalla, „Suðurvalladagurinn“ var haldinn  föstudaginn 11. maí.  Veðurguðirnir lögðu blessun sína yfir hátíðahöldin og létu sólina skína glatt á mannskapinn, sem að sjálfsögðu var í sólskinsskapi. 

Fyrstubekkingar Stóru-Vogaskóla voru heiðursgestir dagsins og það var gagnkvæm gleði á báða bóga að hafa þau hér með okkur.  Börnin fengu grillaðar pylsur í hádeginu.  Þá var þeim boðið upp á andlitsmálningu og urðu sum hver óþekkjanleg sem ýmiskonar dýr eða hugprúðar hetjur hvíta tjaldsins.

Foreldrarnir mættu eftir hádegið og skoðuðu ýmis verk barna sinna frá í vetur.  Þá bauð foreldrafélagið upp á leikskýningu, það voru þær Skoppa og Skrýtla sem sungu og dönsuðu af hjartans list og náðu vel til barnanna.  Foreldrarnir tóku sig saman, lögðu til hvert fyrir sig og buðu upp á alls konar kaffimeðlæti í drekkutímanum, svo úr varð dýrindis veisla.

Leikskólastjóri