Styrkur til ljósleiðaravæðingar

Síðustu ár hefur verið unnið að ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í sveitarfélaginu. Í fyrra fékkst átta milljón króna styrkur frá ríkinu til verkefnisins og var hafist handa. Í ljós kom að aðstæður voru mun erfiðari en gert hafði verið ráð fyrir og reyndist þar kostnaður vegna fleygunar vega þyngs. Verkefnið fór talsvert fram úr kostnaðaráætlun og var það stöðvað síðastliðið haust en þá átti enn eftir að tengja þrjú hverfi. 

Viðræður hafa staðið yfir milli sveitarfélagsins og ríkisins og það var úr að sveitarfélagið sótti aftur um styrk nú í vor og hlsut á dögunum rúmlega 22 milljóna króna styrk sem gerir það að verkum að nú er unnt að hefjast handa við að klára verkið og ætti því að verða lokið í sumar. 

Verkefnið Ísland ljóstengt er tímabundið landsátak ríkisins og sveitarfélaga í ljósleiðarauppbyggingu utan markaðssvæða í dreifbýli. Markmið átaksins, sem er eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar, er að tryggja nær öllum lögheimilum og fyrirtækjum á slíkum svæðum, aðgang að ljósleiðaratengingu.

Verkefnið hófst formlega vorið 2016. Úthlutunin í ár er fimmta úthlutun fjarskiptasjóðs og jafnframt sú fjórða á grundvelli byggðaáætlunar á jafn mörgum árum. Stefnt er að lokaúthlutun á grundvelli Ísland ljóstengt á næsta ári.

 

Sjá nánar í frétt hér: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/06/12/Stjornvold-hrada-ljosleidaravaedingu-i-dreifbyli/