Vakin er athygli eigenda stórra ökutækja á ákvæðum lögreglusamþykktar sem varða ökutæki í íbúðabyggð. Nú er farið að vora og íbúar byrjaðir að huga að görðum sínum og nánasta umhverfi, og börn farin að leika sér meira úti. Við nokkur hús í sveitarfélaginu hefur verið lagt þungum vinnuvélum og vörubifreiðum sem eru til lítillar prýði og oft til ama fyrir nágranna, auk þess skapast hætta af akstri þeirra um þröngar íbúagötur þar sem börn eru að leik.
Vörubifreiðum sem eru 5 tonn að leyfðri heildarþyngd eða meira og fólksflutningabifreiðum sem flytja mega 10 farþega eða fleiri má ekki leggja á götum eða almennings-bifreiðastæðum nema þau séu til þess ætluð. Bann þetta gildir einnig um hvers konar vinnuvélar og dráttarvélar án tillits til þunga þeirra. Bæjarstjórn getur veitt undanþágu frá banni þessu og skal þá afmarka og merkja sérstaklega þá staði þar sem undanþága hefur verið veitt.
Eigendur slíkra ökutækja eru hvattir til að leggja tækjum sínum að Iðndal 9 í samráði við verkstjóra umhverfisdeildar. Verði þeir ekki við beiðninni mun verða leitað liðsinnis lögreglu við að framfylgja samþykktinni.