Stofnun samtaka Heilsuleikskóla

Föstudaginn 4. nóvember voru stofnuð Samtök heilsuleikskóla í Salarlaug í  Kópavogi. Markmið samtakanna er að stuðla að heilsueflingu í

leikskólasamfélaginu, gæta hagsmuna heilsuleikskóla, efla samheldni þeirra og skapa vettvang til fræðslu og skoðanaskipta.

 

Upphaf heilsuleikskóla

 

Heilsuefling í skólum byrjaði 1994 sem samstarfsverkefni heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins við skóla á öllum

skólastigum. Evrópuverkefni heilsuskóla hófst 1999 og lauk 2002 og voru 4 skólar og heilsugæslan í Kópavogi þátttakendur. 
Afrakstur evrópuverkefnisins var viðmið fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem fram koma markmið

heilsueflingar í skólum og þau grundvallarviðmið sem heilsuskólar eiga að starfa út frá. Heilsuskólasamfélagið samanstendur 
af börnum, foreldrum, öðrum aðstandendum og starfsfólki heilsuskólanna.

 

Heilsuleikskólinn Skólatröð í Kópavogi hóf starfsemi sína 1. september 1996. Árið 2000 stækkaði skólinn og heitir nú
Heilsuleikskólinn Urðarhóll með um 150 börn. Markmið skólans hefur verið þetta frá upphafi; að auka gleði og

vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listir í leik. Heilsuleikskólinn Urðarhóll með Unni Stefánsdóttur 
leikskólastjóra í fararbroddi, hafði því frumkvæðið að mótun heilsustefnu og hafa nú 6 leikskólar víðs vegar um landið 
fylgt í kjölfarið. Kennarar Urðarhóls gáfu út Heilsubók barnsins og hönnuðu merki heilsuleikskólans. Fáni með

heilsumerkinu er sú viðurkennig sem leikskólarnir fá afhenta þegar þeir hafa uppfyllt þau skilyrði sem heilsuleikskóla
ber að uppfylla. Á Suðurnesjum eru þrír heilsuleikskólar; Krókur í Grindavík, Heiðarsel í Reykjanesbæ og

Suðurvellir í Vogum.